Bandarískur hermaður féll við Mosúl

Bandarískur hermaður lét lífið þegar sprengja sprakk norður af borginni Mosúl í Írak. Þetta kemur fram í frétt AFP og vísað í háttsettan embættismann hjá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Talið er að hermaðurinn hafi látist í tengslum við hernaðaraðgerðir við borgina en íraski herinn hefur að undanförnu sótt að henni.

Mósúl hefur verið á valdi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams og er borgin síðasta vígi samtakanna í Írak. Rúmlega eitt hundrað bandarískir hermenn hafa verið í landinu þar sem þeir hafa ráðlagt öryggissveitum íraska hersins og hersveita Kúrda í sókninni að Mosúl. Sótt er að borginni úr mörgum áttum.

Frekari upplýsingar um bandaríska hermanninn hafa ekki verið veittar en sjónvarpsstöðin CNN hefur eftir ónafngeindum bandarískum embættismanni að hermaðurinn hafi verið fluttur af vígvellinum og látist síðar af sárum sínum.

Þetta er fjórði bandaríski hermaðurinn sem hefur látist í Írak eftir að aðgerðir hófust gegn Ríki íslams árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert