Neyddust til að drepa tígrisdýrið

Helmingur villtra tígrisdýra eru í Indlandi.
Helmingur villtra tígrisdýra eru í Indlandi. AFP

Íbúar í Uttarakhand á Indandi fögnuðu ákaft eftir að ljóst var að yfirvöld höfðu náð að drepa þriggja ára gamalt tígrisdýr. Tigrisdýrið hafði drepið þrjá einstaklinga og sært jafn marga yfir tveggja mánaða tímabil.

Leitin að tígrisdýrinu stóð yfir í 44 daga og notuðu yfirvöld dróna, flugvélar, fíla og sporhunda í leitinni sem fjölmargir íbúar tóku þátt í. Skógurinn er þéttur sem tígrisdýrið bjó í sem er við rætur Himalayjafjalla í norðurhluta Indlands.

Ætluðu að setja deyfilyf í dýrið

„Þrátt fyrir að dýrið hafi orðið fólki að bana var markmiðið að koma í það deyfilyfi en ekki að fella það. Hins vegar neyddumst við til þess að fella dýrið eftir margar misheppnaðar tilraunir til að fanga það,“ sagði D.V.S Khati framkvæmdastjóri samtaka um skóga og dýralíf í Uttarakhand. Hann bendir á að íbúar hafi óttast um líf sitt eftir árásir dýrsins. Í byrjun September lést kona eftir að tígrisdýrið réðst á hana rétt utan við Jim Corbett-garðinn.

Það sem af er þessu ári hafi 100 tígrisdýr drepist á Indlandi þar af hafa 36 fallið fyrir hendi veiðiþjófa, samkvæmt fjölmiðlum. Indland er heimkynni ríflega helmings allra tígrisdýra í heiminum. Árið 2014 voru þau 2,226 talsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert