Aleppo er eins og sláturhús

Reykur rís frá byggingum í austurhluta Aleppo. Rússar segja einhliða …
Reykur rís frá byggingum í austurhluta Aleppo. Rússar segja einhliða vopnahlé rússneska hersins og sýrlenska stjórnahersins vera áfram í gildi til sjö annað kvöld. AFP

Ástandinu í Aleppo má best líkja við sláturhús, sagði mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Zeid Raad Al Hussein, í ræðu sem hann hélt á mannréttindaþingi Sameinuðu Þjóðanna í Genf í dag.

Hussein sagði umsátrið og loftárásirnar sem gerðar hafa verið á austurhluta Aleppo vera „glæpi af sögulegri stærðargráðu“.  Tæplega 500 manns hafa látið lífið og um 2.000 hafa slasast frá því að sýrlenski stjórnarherinn með stuðningi rússneska hersins hóf áhlaup á borgina að nýju fyrir tæpum mánuði síðan að sögn fréttavefjar BBC.

Sýrlandsstjórn hefur sagt almenna borgar þjást fyrir gjörðir „hryðjuverkamanna“.

Sameinuðu þjóðirnar segja hins vegar að ekki fólksflutningum frá borginni hafi seinkað af því að ekki hafi reynst mögulegt að tryggja öryggi þeirra særðu einstaklinga sem til stóð að flytja á brott frá borginni á meðan að vopnahléið sem Rússar og sýrlenski stjórnarherinn lýstu einhliða yfir af „mannúðar ástæðum“ stendur yfir.

Jafngildir uppgjöf að yfirgefa borgina

Rússnesk stjórnvöld hafa sagt að vopnahléið verði í gildi til sjö annað kvöld og að bæði almennum borgurum og uppreisnarmönnum sé óhætt að nýta sér það til að yfirgefa borgina.

Fáir hafa hins vegar brugðist við þessu boði og hafa uppreisnarmenn sagt það jafngilda uppgjöf að yfirgefa borgina.

Aleppo var áður ein stærsta borg Sýrlands og ein helsta miðstöð viðskipta og iðnaðar í landinu. Hún hefur nú að stórum hlut verið lögð í rúst frá því að átök hófust í landinu 2012 og er nú skipt í tvennt milli deilandi fylkinga, þar sem stjórnarher Bashar al-Assad Sýrlandsforseta ræður yfir vesturhluta borgarinnar og uppreisnarmenn yfir austurhlutanum.

„Glæpir af sögulegri stærðargráðu“

Við upphaf mannréttindaþings Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag varaði Hussein við því að „glæpir af sögulegri stærðargráðu“ væru nú framdir í austurhluta Aleppo og annars staðar í Sýrlandi.

„Hin forna borg Aleppo, staður kurteisi og fegurðar er í dag sláturhús – hryllilegur staður sársauka og ótta, þar sem líflausir líkamar lítilla barna eru grafnir undir rústum og þar sem sprengjum er vísvitandi varpað á óléttar konur,“ sagði Hussein og bætti við að starfsfólk mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna hafi skráð brot á alþjóða mannréttindalögum af hendi allra þeirra sem að átökunum koma.

„Vopnaðar sveitir uppreisnarmanna halda áfram að varpa sprengjuvörpum og öðrum skotflaugum inn í íbúahverfi í vesturhluta Aleppo, en árásir stjórnarhersins og bandamanna þeirra á austurhlutann bera þó ábyrgð á stærstum hluta mannfalls almennra borgara,“ sagði hann.

„Þessi brot jafngilda stríðsglæpum. Og ef þau eru vísvitandi framinn sem hluti af víðfeðmum eða skipulögðum árásum sem beint er gegn almennum borgurum, þá jafngilda þau glæpum gegn mannkyninu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert