Klerkur framseldur til Ítalíu

Mullah Krekar.
Mullah Krekar. AFP

Norskur áfrýjunardómstóll staðfesti í dag að klerkurinn Mullah Krekar verði framseldur til Ítalíu. Þar bíður hans ákæra vegna aðildar að fyrirhuguðum hryðjuverkum.

Héraðsdómurinn í Osló ákvað í júní að hinn 60 ára gamli Krekar yrði framseldur. Hann er stofn­and hryðju­verka­sam­tak­anna Asnal al-Islam og hefur verið tengdur við samtökin Ríki Íslams.

Krek­ar, sem er írask­ur Kúr­di, hef­ur búið í Nor­egi frá árinu 1991 en hann fékk póli­tískt hæli í Nor­egi á sín­um tíma. Ítalir saka hann um að standa á bak við samtök sem hafa skipulagt árásir í Evrópu.

Krekar hafði áfrýjað niðurstöðunni frá því í júní en áfrýjun hans var hafnað í dag.

Lögfræðingur Krekars, Brynjar Meling, sagði AFP-fréttaveitunni að skjólstæðingur hans myndi núna láta reyna á málið fyrir hæstarétti.

Lögfræðingurinn sagði að Krekar hefði eingöngu reynt að stofna stjórnmálahreyfingu í Írak. „Þetta kemur hryðjuverkum ekkert við,“ sagði Meling.

Krekar hefur tvívegis verið dæmdur til fangelsisvistar í Noregi fyrir ofbeldisfulla hegðun og hótanir. 

Hon­um hef­ur verið vísað frá Nor­egi, því hann er skil­greind­ur sem hættu­leg­ur ör­yggi borg­ar­anna. Aft­ur á móti bíður hans dauðarefs­ing í Írak og því hafa Norðmenn ekki framfylgt brottvísuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert