„Sonur minn andar ekki“

Chase Miller mætir á vettvang og tekur Brayden úr fangi …
Chase Miller mætir á vettvang og tekur Brayden úr fangi móður sinnar.

„Sonur minn andar ekki,“ sagði örvæntingarfullur faðir í Texas er hann hringdi á neyðarlínuna. Sjúkralið var þegar kallað á staðinn.

Lögreglumaðurinn Chase Miller heyrði útkallið í talstöð sinni og var kominn á vettvang í bænum Granbury örfáum sekúndum síðar. Þar kom móðir með lífvana, þriggja ára son sinn hlaupandi á móti honum.

Í mælaborði lögreglubílsins var myndavél og á upptökunni má sjá þegar Miller hleypur út, tekur barnið úr fangi móðurinnar og byrjar endurlífgun með hjartahnoði. 

„Ég bara reyndi að fá hann til að anda, ekkert annað skipti máli á þessu tímapunkti,“ sagði Miller í samtali við sjónvarpsstöðina NBC-DFW

Lögreglustjórinn í Granbury segir að Miller hafi brugðist hárrétt við. Hann hafi sýnt stillingu við erfiðar aðstæður. Það hafi róað foreldrana. Hann hafi þurft að treysta á föðurinn að halda hjartahnoði áfram á meðan hann sótti súrefnisgrímu í lögreglubílinn. Hann tók svo aftur við endurlífguninni. Hún stóð í heilar þrjár mínútur. Og svo fór litli drengurinn allt í einu að anda á ný.

Brayden litli var svo fluttur með hraði á sjúkrahús. Hann hefur nú náð sér að fullu.

Í gær var Miller veitt viðurkenning fyrir björgunarafrek sitt. Borgarstjóri Granbury afhenti verðlaunin en mestu skipti fyrir Miller að Brayden litli var á staðnum og faðmaði hann að sér, þakklátur fyrir björgunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert