„Írakar munu frelsa Mosúl“

Íraskir hermenn handsama meintan liðsmann íslamska ríkisins í Mosúl.
Íraskir hermenn handsama meintan liðsmann íslamska ríkisins í Mosúl. AFP

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, hefur ítrekað að hann hafni aðstoð Tyrkja við að ná borginni Mosúl úr höndum hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams.

Abadi tilkynnti þetta á fundi með varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Ashton Cartar. Sá síðarnefndi er í Bagdad til að meta stöðu mála en íraskar hersveitir vinna að því að ná Mosúl aftur á sitt band.

„Ég veit að Tyrkir vilja taka þátt...ég get bara sagt við þá „takk en þetta er eitthvað sem Írakar munu sjá um og Írakar munu frelsa Mosúl,“ sagði Abadi.

„Við erum ekki lentir í neinum vandræðum. Ef við þurfum aðstoð, þá munum við biðja Tyrki eða aðra á svæðinu um hjálp,“ bætti hann við.

Carter fundaði í gær með for­seta Tyrk­lands, Recep Tayyip Er­dog­an, í gær. Þar var ákveðið að vinna áfram með NATO gegn þeirri sameiginlegu ógn sem Ríki íslams er.

Bandaríkjamenn hafa stutt við bakið á Abadi og hernaðaraðgerðir hans manna til að ná landinu til baka sem liðsmenn Ríkis Íslams náðu fyrir tveimur árum síðan.

Tyrkir eru staðsettir í norðurhluta Íraks og standa nú þegar í hernaðargerðum í þeim hluta landsins. Abadi er hins vegar undir pressu að hafna Tyrkjum opinberlega.

Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lýst því yfir að hann vilji að hans menn leiki stórt hlutverk í því að hrekja liðsmenn íslamska ríkisins frá Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert