Myrtur við heimili sitt

Maðurinn var drepinn fyrir utan heimili sitt í úthverfi Cairo.
Maðurinn var drepinn fyrir utan heimili sitt í úthverfi Cairo. AFP

Háttsettur maður í egypska hernum var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í úthverfi Cairo í morgun samkvæmt AFP-fréttaveitunni.

Jíhadistar hafa drepið hundruð lögreglumanna og hermanna en það er afar sjaldgæft að hærra settir menn verði fyrir árásum.

Mágkona hershöfðingjans Adel Ragaei greindi AFP frá því að Ragaei hefði verið skotinn til bana þegar hann ætlaði að yfirgefa heimili sitt í morgun.

„Klukkan sex í morgun drápu þeir hann. Ég get ekki sagt til um hvort þetta hafi verið sex eða tólf kúlur en það gerðist áður en hann komst inn í bílinn sinn,“ sagði hún.

Annar hershöfðingi sagði að Ragaei hefði verið gerður að píslarvætti. Hann vildi ekki útskýra orð sín nánar.

Jíhadistar eru hliðhollir liðsmönnum íslamska ríkisins og hafa gert árásir í norðurhluta Afríku. Það er talið nánast fullvíst að einhver þeirra hafi skotið Ragei til bana í morgun, þó enginn hópur hafi lýst yfir ábyrgð vegna árásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert