Viðræður um Ceta á þunnum ís

Chrystia Freeland var gráti næst þegar hún tilkynnti að viðræður …
Chrystia Freeland var gráti næst þegar hún tilkynnti að viðræður hefðu farið út um þúfur. AFP

Fríverslunarsamningur milli Kanada og Evrópusambandsins er í uppnámi en viðskiptaráðherra Kanada, Chrystia Freeland, var gráti næst á föstudag þegar hún tilkynnti endalok viðræðna við stjórnvöld í Wallonia í Belgíu, sem hafa reynt að koma í veg fyrir samkomulag.

Freeland gekk af fundi í Élysette í Namur, þar sem þing Wallonia er staðsett, og sagði augljóst að Evrópusambandinu væri ókleift að ná alþjóðlegu samkomulagi, jafnvel við ríki sem deildi evróskum gildum og væri gott og þolinmótt.

„Þetta eru vonbrigði fyrir Kanada. Ég hef persónulega orðið fyrir vonbrigðum. Ég hef unnið hörðumhöndum. Við höfum ákveðið að fara heim. Ég er virkilega afar döpur,“ sagði Freeland.

Samningurinn, sem gengur undir skammstöfuninni Ceta, snýst um að fella niður gjöld á flestum vörum í viðskiptum milli Evrópusambandsins og Kanada. Hann hefur verið í smíðum í sjö ár.

Samkomulagið nýtur stuðnings allra aðildarríkja Evrópusambandsins en stjórnvöld í Wallonia í Belgíu hafa komið í veg fyrir undirritun þarlendra stjórnvalda. Hafa þau lýst yfir þungum áhyggjum vegna yfirvofandi innflutnings á svína- og nautakjöti frá Kanada, og því að deilur milli ríkja og erlendra fjárfesta verða útkljáðar af sérstökum dómstólum.

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, sagðist á föstudag myndu funda með Freeland og fyrsta ráðherra Wallonia í dag, í viðleitni til að koma viðræðum á skrið á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert