Hætt að svara Trump

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata.
Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata. AFP

Forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, Hillary Clinton, segist ekki lengur hafa áhuga á því sem andstæðingur hennar Donald Trump hefur að segja. Hún ætlar þess í stað að einbeita sér að málefnunum.

„Ég deildi við hann í fjóra og hálfa klukkustund,“ sagði hún og átti þar við kappræður þeirra. „Ég hugsa ekki einu sinni um það lengur að svara honum.“

Þetta sagði Clinton er hún var að fara um borð í flugvélina sem hefur notað í kosningaherferð sinni, að því er BBC greindi frá. 

Aðeins sextán dagar eru þangað til kosningarnar fara fram og hingað til hefur mikil orka farið í að ræða um persónuleg málefni hjá frambjóðendunum.

Fylgi Trumps hefur dregist saman vegna umfjöllunar um að hann hafi áreitt fjölda kvenna kynferðislega og vegna ummæla hans frá árinu 2005 þar sem hann hafði uppi niðrandi ummæli í garð kvenna.

12 prósentustiga forskot

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun fréttastofunnar ABC mælist Clinton núna með 12 prósentustiga forskot á Trump í kapphlaupinu um forsetastólinn.

Í skoðanakönnun sem ABC og dagblaðið Washington Post gerðu fyrir tíu dögum síðan var Clinton með fjögurra prósentustiga forskot.

Donald Trump,
Donald Trump, AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert