Örlög barnanna í höndum Breta

Unglingspiltar ganga um frumskóginn, búðirnar í Calais.
Unglingspiltar ganga um frumskóginn, búðirnar í Calais. AFP

Keppst er við það í dag að koma sem flestum börnum og ungmennum til Bretlands úr „frumskóginum“, búðum flóttamanna í Calais í Frakklandi, áður en niðurrif búðanna hefst. Í búðunum hafast þeir við sem sækja eftir hæli í Bretlandi.

Hlutirnir ganga nú hratt fyrir sig rétt við Calais: Ungum flóttamönnum er vísað að gámum þar sem fulltrúar breska innanríkisráðuneytisins hafa komið sér fyrir. Þar eru myndir teknar af börnum sem og stutt viðtöl. Börnin eru meðal þeirra sem hafa komið fylgdarlaus í búðirnar. 

Í kjölfarið verða örlög þeirra ákveðin. 

Tugir barna hafa þegar verið flutt úr búðunum í Calais …
Tugir barna hafa þegar verið flutt úr búðunum í Calais til Bretlands. AFP

„Við höfum tekið 600 viðtöl í heildina og á einni viku hafa 194 börn og ungmenni yfirgefið Calais og farið til Bretlands,“ segir Pierre Henry, yfirmaður góðgerðarsamtakanna France Terre D'Asile (FTDA), sem taka þátt í ferlinu fyrir hönd franskra stjórnvalda.

Markmiðið er að taka mál sem flestra barna og ungmenna fyrir en talið er að um 1.300 börn yngri en átján ára hafi verið í búðunum, þar af 500 með tengsl við Bretland.

Ekki er enn ljóst hversu mörgum börnum Bretar ætla að taka á móti. Í frétt AFP er haft eftir breskum embættismanni að þau verði um 600.

Málefnið er viðkvæmt og segir franskur embættismaður við AFP að viðræðurnar við Bretana hafi verið þungar. „Við hefðum viljað ganga lengra,“ segir Frakkinn.

Aðeins sjötíu börn voru flutt úr búðunum fyrstu mánuði ársins, þó að búið hafi verið að ákveða að jafna þær við jörðu.

Í viðtölunum við unglingana í hópnum er þeim boðið að gefa upplýsingar um sjálfa sig og hver tengsl þeirra eru við Bretland. Í mörgum tilvikum segja börnin að þar búi ættingjar þeirra, s.s. frænkur og frændur. Sjaldgæft er að foreldrar þeirra búi í landinu.

„Ég á enga fjölskyldu, ég kom til Evrópu einn míns liðs,“ segir Maharawi, sautján ára afganskur piltur sem beið í röðinni eftir viðtali í dag. Við hlið hans stóð vinur hans Anwar. Sá er heppnari, bróðir hans er þegar kominn til Bretlands.  „Ég þurfti að láta þá fá símanúmerið hans, þeir ætla að hringja í hann. Eftir það vona ég að ég komist héðan.“

Það er breskra yfirvalda að ákveða hvort þau telji börnin í raun undir lögaldri og hvort að fjölskyldutengslin séu fyrir hendi. Ef svo reynist vera ber þeim skylda samkvæmt reglum Evrópusambandsins að sameina börnin ættingjum sínum. 

En hvað verður um börnin sem engin tengsl hafa við Bretland? Þá fyrst fara málin að flækjast. 

 Einn möguleikinn er að þau sæki um hæli með vísan í bresk lög um varnarlaus börn á flótta. Lagagreinin sem á þessu tekur var samþykkt í maí og er kennd við Alfred Dubs, 83 ára, sem á sæti í lávarðadeild breska þingsins. Hann sagði að Bretar ættu að vera miskunnsamir og vísaði til sinnar eigin ævisögu en hann flúði til Bretlands undan nasistum árið 1939.

En hvaða börn eru í viðkvæmri stöðu og hver ekki?

„Þetta er flókið því það þarf að ákvarða hvort að barnið geti talist flóttamaður samkvæmt lögum,“ segir breskur embættismaður við AFP-fréttastofuna. 

Í gær voru 53 stúlkur fluttar til Bretlands á grundvelli lagagreinarinnar. Frakkar vona að fleiri börn muni fylgja í kjölfarið.

Þau börn og ungmenni sem Bretar munu ekki taka á móti munu búa í gámum í Calais í tvær vikur. Svo verða þau flutt í athvörf víðsvegar um Frakkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert