Byrjað að rýma flóttamannabúðirnar

Íbúar flóttamannabúðanna í Calais bera föggur sínar á leið að …
Íbúar flóttamannabúðanna í Calais bera föggur sínar á leið að skráningamiðstöðvum, þaðan sem þeir verða fluttir í flóttamannabúður víðsvegar um Frakkland. AFP

Rúmlega 1.200 franskir lögreglu- og embættismenn búa sig nú undir að rýma flóttamannabúðir í Calais, sem í daglegu tali eru kallaðar Jungle. Búðirnar eru sjálfsprottnar og búa þar um 7.000 manns við ömurlegar aðstæður, en frönsk yfirvöld ætla að senda stórvirkar vinnuvélar á staðinn á morgun til að jafna búðirnar við jörðu.

Tugir hælisleitenda voru byrjaðir að safnast saman við móttökustöðvar nú morgunsárið þar sem þeir verða skráðir og fluttir í flóttamannabúðir og -miðstöðvar víðs vegar um Frakkland. Fréttamaður BBC í Calais sagði íbúa búðanna hafa byrjað að bíða við skráningarmiðstöðvar allt að fjórum tímum áður en þær voru opnaðar. Hann sagði flesta vera í góðu skapi, þó að nokkur ringulreið ríkti.

Ekki er hins vegar talið að allir íbúar búðanna séu viljugir að láta flytja sig, þar sem þeir stefna enn á að komast til Bretlands. Nokkuð hefur verið um átök milli lögreglu og íbúa búðanna um helgina vegna þessa og búast lögregluyfirvöld því við átökum er líða tekur á daginn. Flestir íbúar Frumskógarbúðanna koma frá Afríku og Mið-Austurlöndum.

Meðal íbúa Jungle-búðanna er fjöldi fylgdarlausra barna og ungmenna og hafa bresk stjórnvöld nú hafist handa við að taka á móti hluta þeirra 1.300 barna sem talið er að dvelji fylgdarlaus í búðunum. Að sögn fréttavefs BBC hefur fyrsti hópur þeirra ungmenna sem fellur undir hinn svonefnda Dubs-viðauka, nú verið fluttur til Bretlands. Dubs-viðaukinn kveður á um að breskum stjórnvöldum beri skylda til að taka á móti börnum undir 13 ára aldri sem eru ein á ferð í Evrópu.

Hjálparsamtök aðstoða nú frönsk yfirvöld við skráningu þeirra ungmenna sem enn dvelja í Jungle-búðunum til að ákvarða hver þeirra eigi rétt á að vera flutt til Bretlands.

Til að tryggja öryggi barnanna á meðan búðirnar verða rifnar munu þau dvelja í skipagámum sem breytt hefur verið í húsnæði og verða þeir flóttamenn sem þegar dvelja í gámunum fluttir annað til að rýma fyrir börnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert