Frambjóðandi sakaður um að misnota guð

Auglýsing fyrir forsetaframbjóðandann Norbert Hofer, þó ekki með vísun í …
Auglýsing fyrir forsetaframbjóðandann Norbert Hofer, þó ekki með vísun í æðri máttarvöld. AFP

Þrjár helstu kirkjudeildir mótmælenda í Austurríki saka forsetaframbjóðandann Norbert Hofer um að misnota nafn guðs í þágu stefnu sem sé útlendingafælin. Öfgahægrimaðurinn hefur notað „Svo hjálpi mér guð“ ásamt hefðbundnari slagorðum á kosningaveggspjöldum undanfarna viku.

„Við lítum svo á að með því að minnast á guð [...] að ráðast óbeint á önnur trúarbrögð og siðmenningar jafngildi því að misnota nafn hans og trúarbrögð almennt,“ segir Michael Bönker biskup í sameiginlegri yfirlýsingu með tveimur öðrum trúarleiðtogum mótmælenda. Þeir segja ekki hægt að nota guð sem verkfæri í persónulegum eða pólitískum tilgangi.

Guð Biblíunnar verji þá veiku, fátæku og þá sem standi höllum fæti. Það eigi sérstaklega við um flóttamenn og útlendinga nú um stundir, segja leiðtogarnir þrír.

Frelsisflokkur Hofer segist hafa valið að vísa til guðs vegna þess að það endurspegli „sterka kjölfestu í kristnum og vestrænum gildum“. Flokkurinn hafnar enn fremur gagnrýni trúarleiðtoganna því orðalagið hafi komi beint úr hjarta Hofer, sem sjálfur snerist frá kaþólsku til mótmælendatrúar.

Hofer tapaði naumlega fyrir Alexander Van der Bellen í forsetakosningunum sem fóru fram í maí. Stjórnlagadómstóll landsins felldi niðurstöður þeirra hins vegar úr gildi í júlí. Til stóð að endurtaka kosningarnar í október en það fór út um þúfur þegar galli í póstatkvæðum kom í ljós.

Skoðanakannanir benda til þess að Van der Bellen og Hofer séu hnífjafnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert