Ríki íslams tók fimm af lífi í áhlaupi á landamærabæ

Tugþúsunda manna lið Írakshers tekur þátt í áhlaupinu á Mósúl. …
Tugþúsunda manna lið Írakshers tekur þátt í áhlaupinu á Mósúl. Hermenn eru hér með íraska fánan á lofti við komuna í þorpi al-Khuwayn, suður af Mósúl, sem þeir hafa náð úr höndum Ríkis íslams. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams tóku í dag fimm Íraka af lífi í bænum Rutba í vesturhluta landsins. Vígamenn samtakanna gerðu áhlaup á Rutba, afskekktan bæ sem þykir hernaðarlega mikilvægur vegna nálægðar sinnar við landamæri Jórdaníu.

Vígamennirnir náðu bæjarstjóraskrifstofunni á sitt vald um tíma áður en öryggisveitir hröktu þá á brott. AFP-fréttastofan segir hryðjuverkasamtökin þó enn hafa hluta bæjarins á valdi sínu.

„Ríki íslams er með hverfin Mithaq og Intisar í miðbænum á valdi sínu,“ hefur AFP eftir herforingja í íraska hernum. „Þeir tóku fólk í gíslingu – almenna borgara og lögreglumenn –og tóku það af lífi,“ sagði hann. „Að minnsta kosti fimm manns voru teknir af lífi.“

Hershöfðinginn Ismail al-Mahalawi, sem fer fyrir aðgerðum hersins í vesturhluta Anbar-héraðs, staðfesti aftökurnar en sagði íraska herinn aftur vera að ná yfirhöndinni í bænum.

Áhlaupið á Rutba er talið hafa verið gert í því skyni að draga herafla Írakshers og bandamanna þeirra á brott frá Mósúl, sem er höfuðvígi samtakanna í Írak.

Tugir þúsunda hermanna Írakshers hafa tekið þátt í áhlaupi á Mósúl undanfarna viku. Hersveitir Írakshers eru mun fjölmennari en vígamenn Ríkis íslams í borginni og þykir því lítill vafi á að Íraksher hafi sigur á endanum.

Ríki íslams hefur engu að síður veitt harða mótspyrnu og staðið fyrir árásum víða í Írak undanfarna dag. Á föstudag gerðu vígamenn samtakanna t.a.m. árás á borgina Kirkuk sem kostaði hátt í 50 manns lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert