Ætla að framlengja vopnahléið í Aleppo

Tæplega 50 Sýrlendingar sem bjuggu í austurhluta Aleppo nýttu sér …
Tæplega 50 Sýrlendingar sem bjuggu í austurhluta Aleppo nýttu sér í gærvöldi eina þeirra leiða sem íbúum bauðst að yfirgefa borgina eftir. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi sögðu í dag að rússneski herinn og sýrlenski stjórnarherinn hefðu ekki staðið fyrir neinum loftárásum á Aleppo síðastliðna sjö daga og að einhliða vopnahlé þeirra væri enn í gildi.

„Öllum flugferðum rússneska og sýrlenska flughersins hefur verið hætt á tíu kílómetra svæði í kringum Aleppo frá því 18. október,“ sagði Sergei Rudskoi, yfirmaður í rússneska hernum, á fréttamannafundi.

„Bannið við loftárásum rússneskra og sýrlenskra flugvéla í nágrenni borgarinnar verður framlengt,“ sagði Rudskoi en tilgreindi ekki tímarammann nánar.

Svonefnt „vopnahlé af mannúðarástæðum“ sem Sýrlandsstjórn og ríkisstjórn Rússlands lýstu yfir í síðustu viku rann út á laugardag og tilkynntu samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem fylgjast með ástandi mannréttindamála í borginni, skömmu síðar um loftárásir á þann hluta borgarinnar sem er á valdi uppreisnarmanna.

Igor Konashenskov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, hefur greint frá því að sex leiðir sem almennir borgarar eiga að geta notað til að yfirgefið austurhluta borgarinnar, sem er á valdi uppreisnarmanna, séu enn virkar og að tæplega 50 konur og börn hafi nýtt sér þær til að yfirgefa borgina seint í gærkvöldi.

Rússnesk stjórnvöld höfnuðu því engu að síður í gær að reyna aftur að koma á algjöru vopnahléi í borginni, en viðurkenndu að fáir hefðu nýtt sér leiðirnar sex til að yfirgefa borgina. Ástæða þess lægi hins vegar alfarið hjá Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, hvatti Sameinuðu þjóðirnar til að gera meira til að auðvelda brottflutning særðra á brott frá borginni.

Sýrlenskir læknar harma að ekki hafi tekist að flytja særða og sjúka á brott frá austurhluta borgarinnar og hafa m.a. sagt Sameinuðu þjóðirnar bera ábyrgð á því að ekki hafi verið hægt að tryggja öryggi þeirra.

Rúmlega 250.000 manns búa enn í austurhluta borgarinnar, þar sem umsátursástand hefur ríkt undanfarin misseri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert