ESB framlengir landamæraeftirlit

Ljósmynd/Frontex

Evrópusambandið ákvað í dag að framlengja landamæraeftirlit innan Schengen-svæðisins í þrjá mánuði. Gripið var til eftirlitsins á síðasta ári víðs vegar um svæðið í kjölfar þess að mikill fjöldi flóttamanna og förufólks komst inn fyrir ytri mörk þess í Austur-Evrópu.

Schengen-samstarfið gengur út á það að aðildarríkin fella niður landamæraeftirlit innbyrðis en þess í stað er eftirlitið aukið á ytri mörkum svæðisins. Hins vegar brustu ytri mörk Schengen-svæðisins á síðasta ári og var því meðal annars gripið til þessa neyðarúrræðis.

Fram kemur í frétt AFP að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi tilkynnt að eftirlit á landamærum Austurríkis, Þýskalands, Danmörku, Svíþjóðar og Noregs yrði framlengt um þrjá mánuði. Eftirlitið hefur verið framlengt nokkrum sinnum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert