Geislavirkur leki í Noregi

Kjarnorkuver í Frakklandi.
Kjarnorkuver í Frakklandi. AFP

Minniháttar leki á geislavirkum efnum varð úr kjarnakljúfi í Noregi í gær sem notaður er til rannsóknastarfsemi. Ekki er talið að lekinn hafi ógnað heilsu fólks eða umhverfinu að því er fram kemur í yfirlýsingu norskra yfirvalda í dag.

Fram kemur í frétt AFP að lekinn hafi átt sér stað í bænum Halden í suðausturhluta Noregs. Samkvæmt yfirlýsingunni var lekinn afleiðing tæknilegra mistaka þegar unnið var með kjarnorkueldsneyti í húsnæðinu þar sem kjarnakljúfurinn er hýstur.

Rannsókn er þegar hafin af hálfu yfirvalda á því hvað hafi valdið lekanum. Sömuleiðis hvers vegna yfirvöldum var ekki tilkynnt um atvikið fyrr í dag. Daginn eftir að það átti sér stað.

Norðmenn notast ekki við kjarnorku en tveir kjarnakljúfar eru starfræktir í Noregi í rannsóknarskyni. Tilkynnt var fyrr í þessum mánuði að til stæði að hætta starfsemi þeirra af efnahagslegum ástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert