Jarðýtur í stað flóttamanna

Byrjað er að undirbúa niðurrif flóttamannabúða sem hafa gengið undir nafninu „Jungle“ í Calais í Frakklandi, en síðustu flóttamennirnir hafa verið fluttir á brott. Jafna á búðirnar við jörðu en þær voru settar upp í óþökk franskra yfirvalda.af flóttafólki sem er að reyna að komast yfir Ermarsund til Bretlands.

Yfir 1.900 manns yfirgáfu búðirnar í gær og nokkur hundruð voru flutt á brott í morgun. Yfirvöld hafa sett upp gámabyggð þar sem um 800 ungmenni hafa komið sér fyrir. Vonir standa til þess að í lok dags verði flóttamennirnir á svæðinu ekki nema um eitt þúsund talsins og allt ungmenni sem bíða þess að komast til fyrirheitna landsins - Bretlands.

Frumskógurinn/Jungle er því að verða eyðibær og dapur minnisvarði um móttöku flóttafólks í Evrópu, segir hjálparstarfsmaður við AFP-fréttastofuna. 

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, segir að öll ungmenni sem eru án fylgdar fullorðinna og geta sýnt fram á með óyggjandi hætti að þau eigi ættingja í Bretlandi verði flutt yfir Ermarsund til fjölskyldna sinna. Bretar hafa tekið við tæplega 200 unglingum undanfarna viku en engin ungmenni fengu að fara yfir sundið í gær. 

Yfirmaður flóttamannamála í Frakklandi, Pascal Brice, er harðorður í garð breskra yfirvalda. „Við önnumst vinnuna þeirra,“ sagði hann í útvarpsviðtali í morgun. Bretar segjast ætla að setja allt að 36 milljónir punda í að loka búðunum í Calais.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert