Verða að fresta undirrituninni

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins.
Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins. AFP

Evrópusambandið neyðist til þess að fresta fundi sem halda átti á fimmtudaginn þar sem til stóð að undirrita formlega fríverslunarsamning á milli sambandsins og Kanada. Þetta sagði Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, í samtali við þýska útvarpsstöð í morgun.

Fríverslunarsamningurinn er í uppnámi eftir að héraðsþing Vallóníu í Belgíu neitaði að leggja blessun sína yfir samninginn, en samþykki héraða landsins er forsenda þess að belgíska ríkisstjórnin geti undirritað hann samkvæmt þarlendum lögum.

„Ég á ekki von á því að lausn muni liggja fyrir í þessari viku,“ sagði Schulz. „Mér virðist það verða mjög, mjög erfitt.“ Hann lagði þó áherslu á að þótt fresta þyrfti fundinum þýddi það ekki að fríverslunarsamningurinn heyrði sögunni til. Þyrfti fleiri daga yrði málinu einfaldlega frestað.

Fram kemur í frétt AFP að ummæli Schulz séu ekki í samræmi við yfirlýsingu Donalds Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í gær þess efnis að enn væri mögulegt að fríverslunarsamningurinn við Kanada yrði undirritaður á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert