22 börn farast í árás á skóla í Sýrlandi

Ein af skólastofunum í þorpinu Hass, sem urðu fyrir loftárásunum. …
Ein af skólastofunum í þorpinu Hass, sem urðu fyrir loftárásunum. UNICEF segir 22 börn hafa verið drepin. AFP

22 börn og sex kennarar fórust í loftárás á skóla í Idlib-héraði í Sýrlandi í dag. „Þetta er harmleikur. Og ef þetta var gert viljandi, þá er það stríðsglæpur,“ sagði Anthony Lake, yfirmaður Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), í dag.

Mannréttindasamtökin The Syrian Observatory for Human Rights, sem fylgjast með ástandi mannréttindamála í Sýrlandi, greindu frá því að herflugvélar, annaðhvort rússneskar eða flugvélar sýrlenska stjórnarhersins, hefðu staðið að sex loftárásum á þorpið Hass. Skóli væri meðal þeirra bygginga sem hefðu orðið fyrir árásunum og þar hefðu 11 börn verið drepin.

Lake sagði skólann hafa orðið mörgum árásum og kynni þetta að vera ein banvænasta árás sem gerð hefði verið á skóla í landinu frá því að Sýrlandsstríðið hófst fyrir fimm árum.

Mynd sem sýnir barnshönd sem enn heldur í svarta skólatösku, þrátt fyrir að handleggurinn hafi farið af fyrir ofan olnboga, hefur verið dreift mörgum sinnum á samfélagsmiðlum.

„Hvenær mun hryllingur jarðarbúa á slíkum grimmdarverkum verða nægur til að þeir krefjist þess að þetta hætti?“ bætti Lake við.

AFP-fréttastofan hefur eftir Vitaly Churkin, sendiherra Rússlands, að þetta sé hræðilegur atburður og hann voni að Rússar hafi ekki átt þátt í honum.

„Það væri auðvelt fyrir mig að neita. En ég er ábyrgur maður og ég verð að heyra hverju varnarmálaráðherra okkar svarar,“ sagði Churkin við fréttamenn.

Vesturlönd hafa ítrekað sakað sýrlenska stjórnarherinn og rússneska bandamenn þeirra um að láta sig litlu varða þótt borgaralegar stofnanir verði fyrir árásum þeirra.

Meira en 300.000 manns hafa verið drepnir í Sýrlandi og meira en helmingur íbúa hefur hrakist frá heimilum sínum frá því að Sýrlandsstríðið hófst í mars 2011 með mótmælum gegn ríkisstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert