25 flóttamenn fundust látnir

Ljósmynd tekin fyrr í mánuðinum af fótum flóttafólks, sem bíður …
Ljósmynd tekin fyrr í mánuðinum af fótum flóttafólks, sem bíður björgunar um borð í gúmmíbáti. AFP

25 flóttamenn fundust í dag látnir um borð í uppblásnum gúmmíbáti í Suður-Miðjarðarhafi. Þetta segja frönsku samtökin Læknar án landamæra.

Fram kemur í tilkynningu frá samtökunum að skip þeirra, Bourbon Argos, hafi tekið á móti 107 manns úr bátnum, 26 sjómílum undan ströndum Líbíu í gær.

Áhöfn Bourbon Argos taldi í fyrstu ellefu lík á botni bátsins, sem var þakinn sjó í bland við eldsneyti. Þá var áhöfnin kölluð út til annarrar björgunaraðgerðar þar nærri, þar sem hún bjargaði 139 manns af öðru fleyi.

Að því loknu sneru þau aftur að fyrri bátnum, þar sem í ljós kom að 25 manns höfðu í raun látist um borð, líklega vegna köfnunar, bruna eða drukknunar. Tóku þau líkin af botni bátsins með hjálp annarra hjálparsamtaka, en verkið tók nokkrar klukkustundir.

„Blandan af vatni og eldsneyti var svo viðbjóðsleg að við gátum ekki verið lengi í senn um borð í bátnum. Það var hryllilegt,“ segir verkefnastjóri samtakanna, Michele Telaro, í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert