„Bætir ekki öryggisástandið“

Rússneskir hermenn á göngu fyrir utan vegg Kremlar í Moskvuborg.
Rússneskir hermenn á göngu fyrir utan vegg Kremlar í Moskvuborg. AFP

Rússnesk stjórnvöld gagnrýna áætlanir Bandaríkjanna um að senda rúmlega 300 manna herlið til Noregs. Segja þau að þessar ráðagerðir geri ekkert til að auka öryggi ríkja Norður-Evrópu.

Eins og mbl.is greindi frá á mánudag verða 330 landgönguliðar send­ir til Nor­egs í janúar næstkomandi. Verða þeir staðsett­ir í Værnesi, skammt frá Þrándheimi, um 1.000 kíló­metra frá rúss­nesku landa­mær­un­um, en þar munu þeir stunda æf­ing­ar við kald­ar aðstæður.

Fyrr í mánuðinum greindi mbl.is einnig frá orðrómi þessa efnis.

Fréttir mbl.is:
Bandaríkjaher á leið til Noregs?
330 bandarískir hermenn á leið til Noregs

Verði endurskoðað á næsta ári

„Staðsetning landgönguliða Bandaríkjanna í Værnesi mun vissulega ekki bæta öryggisástandið í Norður-Evrópu,“ segir Maxim Gurov, talsmaður rússneska sendiráðsins í Ósló, í tölvupósti til fréttaveitunnar AFP.

Áður en Norðmenn gengu í Atlantshafsbandalagið, árið 1949, stemmdu þeir stigu við ótta Rússa með því að heita því að landsvæði þeirra yrði ekki opnað fyrir erlendu herliði nema ráðist yrði inn í landið, eða því hótað.

Norska ríkisstjórnin segir herlið NATO þegar æfa reglulega í landinu og að koma bandarísks herliðs til landsins jafnist ekki á við opnun varanlegrar bandarískrar herstöðvar. Þá sé fyrirkomulagið aðeins tilraun sem endurskoðuð verði á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert