Metfjöldi farist á Miðjarðarhafi í ár

Flóttafólk kemur á land í Ítalíu eftir að hafa verið …
Flóttafólk kemur á land í Ítalíu eftir að hafa verið bjargað á Miðjarðarhafinu. AFP

Aldrei hafa fleiri flóttamenn og farandfólk farist við að reyna að komast yfir Miðjarðarhaf til Evrópu en á þessu ári samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Að minnsta kosti 3.800 manns hafa látið lífið það sem af er ári, meira en á öllu síðasta ári, þrátt fyrir að færri leggi í þessa hættulegu för nú.

Talsmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna staðfestir að í það minnsta 3.800 manns séu látnir eða sé saknað á Miðjarðarhafi. Fjöldinn í fyrra var 3.771 þegar milljón flóttamenn náðu ströndum Evrópu. Svaðilförin virðist hlutfallslega mun hættulegri í ár því 330.000 manns hafa farið yfir hafið það sem af er ári.

Umtalsverð fækkun varð á þeim sem leggja á Miðjarðarhafið til að komast til Evrópu eftir að Evrópusambandið og Tyrkir gerðu samkomulag í mars um að stemma stigu við komu flóttamanna á grísku eyjunum.

Hættulegasta leiðin hefur verið á milli Líbíu og Ítalíu þar sem SÞ segja að einn flóttamaður hafi farist fyrir hverja 47 sem hafa komist alla leið á þessu ári. Á milli Tyrklands og Grikklands hefur einn fyrir hverja 88 sem ná landi farist.

Flóttamannastofnunin segir að ferðin yfir Miðjarðarhafið sé hlutfallslega hættulegri í ár vegna þess að smyglarar noti oft léleg fley, jafnvel gúmmíbáta, sem komist ekki alla leið. Smyglararnir virðist einnig troða fleira fólki í báta sína en áður, mögulega til að auka ábata sinn af smyglinu.

Skipsskaðar með fleira fólki hafi leitt til þess að færri bjargist en einnig hafi nokkur slys á þessu ári tengst vondu veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert