Spánn endurskoðar viðkomu flota Rússa

Herskipaflotinn á leið suður eftir Norðursjó. Myndin er fengin úr …
Herskipaflotinn á leið suður eftir Norðursjó. Myndin er fengin úr vörslum norska hersins. AFP

Spænska utanríkisráðuneytið segist nú munu endurskoða áætlanir um að leyfa rússneskum herskipum að fylla á eldsneyti sitt á leið sinni til Austur-Miðjarðarhafs, þaðan sem búist er við að þau muni taka þátt í árásum gegn uppreisnarmönnum í Sýrlandi.

Áætlanirnar hafa vakið gagnrýni margra, meðal annars framkvæmdastjóra NATO, Jens Stoltenbergs, og annarra háttsettra ráðamanna í Evrópu.

Hafa Spánverjar verið sakaðir um hræsni með því að leyfa herskipunum að bæta á sig eldsneyti, en þeir skrifuðu undir yfirlýsingu í síðustu viku þar sem Rússar voru sakaðir um stríðsglæpi í Sýrlandi og lýstu yfir stuðningi við „frelsun Sýrlands“ á ráðstefnu í París í gær.

mbl.is hefur áður fjallað um herskipaflotann, með flugmóðurskipið Kuznetsov aðmírál í fararbroddi, en hann sigldi suður á milli Íslands og Noregs fyrr í mánuðinum á leið sinni til Miðjarðarhafsins.

Sextíu herskip lagst að bryggju Ceuta

Þar til nú hefur verið gert ráð fyrir að flotinn leggist að bryggju spænsku borgarinnar Ceuta, sem liggur á norðurströnd Afríku og á landamæri að Marokkó. Þó að borgin sé vissulega innan Evrópusambandsins hefur staða hennar innan Atlantshafsbandalagsins þótt óljós, og síðan 2011 hafa að minnsta kosti sextíu rússnesk herskip lagst þar að bryggju.

Spánverjar segja þá aðstoð sem þeir hafa veitt Rússum í Ceuta ávallt hafa verið hrein og klár viðskipti, gegnsæ öðrum.

En eins og áður sagði hefur utanríkisráðuneyti landsins sagst munu endurskoða leyfið sem gefið var flotanum.

„Síðustu beiðnir um viðkomu sæta nú endurskoðun, byggðri á upplýsingum sem við höfum fengið frá bandamönnum okkar og rússneskum yfirvöldum,“ hefur breska dagblaðið Guardian eftir ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert