Tóku 30 manns af lífi

Vígamenn sem tengjast Ríki íslams drápu að minnsta kosti 30 almenna borgara, þar á meðal börn, í Ghor héraði í Afganistan í nótt. 

Héraðsstjóri Ghor, Nasir Khazeh, greinir AFP fréttastofunni frá þessu en nákvæm tala látinna liggur ekki fyrir enda voru fyrstu fréttir af voðaverkinu að berast. Hryðjuverkamennirnir höfðu tekið fólkið í gíslingu, að sögn Khazeh. 

Talið er að árásin á þorpið sé hefnd vegna dráps á vígamanni Ríkis íslams í héraðinu. Ríki íslams er mjög að auka umsvif sín í Afganistan en vígasamtökin hafa hingað til haldið sig að mestu í Sýrlandi og Írak.

Líkin fundust snemma í morgun af fólki í héraðinu en talið er að árásarmennirnir séu stuðningsmenn Ríkis íslams. Morðin þykja enn eitt dæmið um þær hættur sem steðja að íbúum Afganistans en talibanar ráða enn yfir svæðum á landsbyggðinni þrátt fyrir að fimmtán ár séu liðin frá því Bandaríkjaher og bandamenn hröktu talibana frá völdum í Afganistan.

Um þrjátíu almennir borgarar voru teknir af lífi í nótt …
Um þrjátíu almennir borgarar voru teknir af lífi í nótt af hryðjuverkamönnum í Afganistan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert