Vill Bandaríkin burt úr landinu

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segist vilja herlið Bandaríkjanna burt úr landi sínu á næstu tveimur árum. Þá sé hann reiðubúinn að rifta varnarsamningum við Bandaríkin, sem lengi hafa verið bandamenn Filippseyja.

Lét forsetinn þessi orð falla fyrr í dag á viðskiptaráðstefnu í Tókýó.

„Ég vil, kannski á næstu tveimur árum, að landið mitt verði laust við viðveru erlends herliðs,“ sagði Duterte, og vísaði þar glögglega til herafla Bandaríkjanna, sem haft hefur aðsetur í landinu til margra ára.

„Ég vil þá út, og ef ég þarf að breyta samningum eða ógilda þá mun ég gera það,“ bætti hann við.

Fyrsta opinbera heimsóknin til Japans

Ummæli forsetans koma í kjölfar ítrekaðra skammarræðna sem hann hefur beint að Bandaríkjunum, á sama tíma og hann hefur gert sér dælt við kínversk stjórnvöld.

Bandaríkin, sem eitt sinn höfðu fjölda herstöðva í landinu, hafa nú aðeins fáliðaðar sérsveitir á suðlægu eyjunni Mindanao, til að aðstoða í aðgerðum gegn hryðjuverkum.

Duterte kom til Tókýó í gærdag, í fyrstu opinberu heimsókn hans til Japans síðan hann tók við embættinu 30. júní síðastliðinn. Vill hann þar sannfæra stjórnendur fyrirtækja um að land hans sé reiðubúið til viðskipta, eftir að hafa umturnað þeim bandalögum sem ríki hans hefur haft undanfarna áratugi.

Duterte talar á viðskiptaráðstefnunni fyrr í dag.
Duterte talar á viðskiptaráðstefnunni fyrr í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert