Flóttakonur fá Sakharov-verðlaunin

Nadia Murad
Nadia Murad AFP

Tvær jasídakonur hljóta Sakharov-mannréttindaverðlaun Evrópuþingsins í ár. Konurnar flúðu úr haldi vígasveita Ríkis íslams í Írak og hafa verið ötular við að berjast fyrir frelsun jasídakvenna úr haldi vígasveita.

Nadia Murad og Lamia Haji Bashar eru meðal þúsunda jasída sem voru teknir höndum af vígamönnum Ríkis íslams, en að mati Ríkis íslams eru jasídar djöfladýrkendur.

Mbl.is hefur fjallað um sögu Nadiu Murad Basee, en hún og Lamiya Aji Bashar eru meðal fjölmargra jasídakvenna og -stúlkna sem voru teknar höndum af Ríki íslams árið 2014 og neyddar í kynlífsþrælkun.

Frétt mbl.is: Fórnarlamb mansals gert að góðgerðarsendiherra

Í Sunnudagasmogganum segir svo um jasída:

Menn fæðast Jasídar en geta ekki gengið í söfnuðinn og margt í siðum þeirra hefur orðið til að einangra þá frá grannþjóðum sínum, jafnvel Kúrdum. Þeir eru þó náskyldir þeim en trú Jasída sameinar ýmsa þætti úr kristni og íslam. Hún er þó um margt alveg sér á báti.

Elstu rætur trúarbragðanna eru óljósar, lengi var talið að þær tengdust eldsdýrkendum Zaraþústra-trúar en að sögn BBC efast fræðimenn nú mjög um það. Í trú Jasída er hvorki til himnaríki né helvíti, þeir trúa á endurholdgun, klæðast aldrei bláum fötum og mega ekki borða grænmeti. Og þeim sem yfirgefa söfnuðinn, giftast út fyrir, er ekki fyrirgefið, ekki frekar en tíðkast meðal múslíma.

Sjálfir segja þeir að Bretar hafi stolið helsta trúarriti þeirra, Svörtu bókinni, hún sé falin einhvers staðar í London. Það bæta þeir sér upp með munnlegri geymd, karlarnir læra hana utan að í bernsku og kenna síðan sonum sínum, segir í Daily Telegraph.

Guð er fjarlægur skapari, segja Jasídar, sem er svo óskiljanlegur okkur dauðlegum mönnum að hann verður ekki tilbeðinn. Þess í stað tigna þeir hálfguðinn Malek Tawwus, öðru nafni Páfugls-engilinn, hann féll en var endurreistur, segja þeir. Annað nafn Tawwus er Shaytan, sem merkir kölski á arabísku, og þaðan er kominn sá útbreiddi og lífseigi misskilningur að Jasídar séu djöfladýrkendur.

En hann hefur reynst örlagaríkur, grannþjóðir hafa lengi notað óttann við Jasída til að hræða óþekk börn. Í tíð Tyrkjaveldis, sem öllu réð í Mið-Austurlöndum fram í fyrri heimsstyrjöld, efndu stjórnvöld til endurtekinna ofsókna gegn Jasídum og margir voru drepnir. Litlir útlagahópar Jasída voru hraktir frá bæði Georgíu og Armeníu eftir fall Sovétríkjanna 1991. Helst hafa þeir fengið að vera í friði í Írak en ekki lengur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert