Geymdi líkið í sturtuklefanum

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Tæplega fertugur maður hefur verið handtekinn í Graz í Austurríki eftir að lögregla fann lík unnustu hans pakkað inn í plast og falið í sturtuklefa íbúðarinnar sem þau leigðu saman. Líkið hafði verið þar í margar vikur.

Rannsóknarlögreglan telur að konan, sem var 44 ára, hafi verið myrt um miðjan september. Að sögn talsmanns saksóknara í Graz, Christian Kroschl, var líkið farið að rotna og liggur dánarorsök ekki nákvæmlega fyrir vegna þess. Dóttir konunnar sem býr í Þýskalandi hafði samband við lögreglu í Graz í síðustu viku þar sem hún hafði ekki heyrt frá móður sinni vikum saman og hún óttaðist um öryggi hennar.

Þegar lögregla fór á heimili konunnar, sem hún deildi með unnustanum, fannst líkið í sturtuklefanum.

The Local segir að fram komi í austurrískum fjölmiðlum að unnustinn hafi verið undir áhrifum eiturlyfja þegar hann myrti hana en Kroschl hefur ekki viljað staðfesta það.

Vitað var að þau væru eiturlyfjafíklar en þau höfðu búið saman í þrjú ár í íbúðinni við Fröhlichgasse. Vinir og fjölskylda bera að þau hafi oft hætt saman og ítrekað hafi kastast í kekki með þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert