Lifur tengdi þau saman

Brúðhjónin Heather Krueger og Christopher Dempsey.
Brúðhjónin Heather Krueger og Christopher Dempsey. Af Facebook-síðu Heather Krueger

Þegar Christopher Dempsey bauðst til þess að gefa manneskju sem hann þekkti ekki neitt helming lifrar sinnar vissi hann að þetta myndi breyta lífi hans en hann átti kannski ekki von á því að með þessu myndi hann bjarga lífi konu sem yrði síðar eiginkona hans.

Innan við tveimur árum eftir að fyrrverandi hermaðurinn Dempsey hringdi í Heather Krueger til þess að láta hana vita að hann ætlaði að gefa henni líffæri voru þau gift.

Fjallað er um þessa ástarsögu á BBC. Þar kemur fram að upphaf hennar megi rekja til samræðna á kaffistofu vinnustaðar í Frankfort, litlu þorpi skammt frá Chicago.

Krueger, sem er 27 ára gömul, var langt leidd af lifrarsjúkdómi og hafði glímt við alvarleg veikindi í tvö ár þegar læknir hennar sagði að helmingslíkur væru á að hún myndi lifa lengur en tvo mánuði til viðbótar án lifrarígræðslu. Fjölskylda hennar leitaði logandi ljósi að lifrargjafa en það er eins og að leita að saumnál í heystakki í landi þar sem 119 þúsund manns eru á biðlista eftir líffæragjöf.

Dempsey, sem er 38 ára og starfar sem öryggisvörður, segist hafa heyrt vinnufélaga tala um frænku sína sem þyrfti nauðsynlega á nýrri lifur að halda. „Ég hugsaði með sjálfum mér að ef ég væri í þessari aðstöðu myndi ég óska þess að einhver aðstoðaði mig og fjölskyldu mína,“ segir Dempsey í viðtali við BBC.

Hann ákvað því að láta kanna möguleikann á því að gerast líffæragjafi og kom í ljós að lifur hans myndi henta Krueger. Hann hringdi í hana í byrjun febrúar 2015 og lét hana vita að hann ætlaði að gefa henni hluta lifrarinnar. Þau hittust síðan fljótlega eftir þetta afdrifaríka símtal er hann bauð henni í hádegismat. 

Næstu vikurnar hittust þau mjög oft og vélhjólaklúbbur Dempseys ákvað að hefja söfnun fyrir Krueger sem þau tóku bæði þátt í.

Að sögn Dempsey fóru þau saman að safna framlögum og innra með honum fóru að bærast tilfinningar til hennar. Þegar kom að aðgerðinni á háskólasjúkrahúsinu í Illinois 16. mars höfðu þau þegar farið á nokkur stefnumót en sögðu engum frá því fyrr en eftir aðgerðina.

„Ég var algjörlega sannfærður um að allt myndi fara vel,“ segir Dempsey en viðurkennir að hann hafi samt haft áhyggjur því alltaf gæti eitthvað farið úrskeiðis. Þau voru hins vegar heppin og er Krueger við góða heilsu.

Átta mánuðum síðar bað hann Krueger um að giftast sér og brúðkaupið fór fram nítján mánuðum eftir aðgerðina. Það hefði aldrei hvarflað að honum tveimur árum áður - að hann ætti eftir að bjarga lífi og kvænast sömu manneskjunni innan tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert