Assange meinað að fara í jarðarför

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Sænska saksóknaraembættið hefur hafnað beiðni Julians Assange, stofnanda WikiLeaks, um að handtökuskipun á hendur honum verði sett á bið svo hann geti yfirgefið sendiráð Ekvadors í London og farið í jarðarför.

Embættið hafnaði beiðninni á þeim grundvelli að sænsk lög leyfa ekki undanþágu á ákvörðun dómstóls um útgáfu evrópskrar handtökuskipunar. 

Ekkert kemur fram um hvern á að jarða eða hvar jarðarförin fer fram.

Hinn 45 ára Assange hefur verið fastur í sendiráðinu síðan í júní 2012. Hann er eftirlýstur  af ríkissaksóknara í Svíþjóð vegna gruns um nauðgun árið 2010.

Assange hefur neitað að ferðast til Svíþjóðar til yfirheyrslna vegna málsins. Hann kveðst óttast að vera framseldur til Bandaríkjanna eftir að WikiLeaks birtu 500 þúsund leyniskjöl Bandaríkjahers frá stríðunum í Afganistan og í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert