Freista þess að bjarga síldinni

Kjalarsíld.
Kjalarsíld. Wikipedia/mamun2a

Stjórnvöld í Bangladess hafa handtekið 900 veiðimenn og sent hermenn til að gæta áa og vatna þar sem kjalarsíldin hrygnir, en veiðar á tegundinni hafa verið bannaðar tímabundið til að freista þess að bjarga stofninum.

Kjalarsíld er afar vinsæl í Bangladess en þar veiðast um 60% allrar kjalarsíldar í heiminum. Óheftar veiðar hafa gengið á stofninn, drifið upp verð og gert fiskinn ófáanlegan fyrir þá sem hafa takmarkað fé milli handanna.

Hver sá sem næst við veiðar á yfir höfði sér árs fangelsi. Bannið tók gildi 12. október og stendur í 22 daga, á meðan fiskurinn hrygnir.

Það er herinn sem sér um að fylgja banninu eftir en hann hefur nú eftirlit með 7.000 ferkílómetrum af vatni; ám, árósum og sjávarsvæðum.

Kjalarsíldin þykir mikið lostæti í Bangladess, en íbúar landsins telja 160 milljónir. Stjórnvöld hafa áður gripið til þess ráðs að setja bann gegn veiðum en þeim hefur ekki verið almennilega framfylgt fram til þessa.

Gagnrýnendur bannsins segja það svipta veiðimenn lífsviðurværi sínu en stjórnvöld hafa  heitið því að gefa 32.000 veiðimönnum ókeypis hrísgrjón til að bæta þeim upp tapið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert