Sólarorkutillaga sögð úlfur í sauðargæru

Stjórnarskrártillagan er sögð styrkja sólarorku í Flórída en mun líklega …
Stjórnarskrártillagan er sögð styrkja sólarorku í Flórída en mun líklega hafa þveröfug áhrif. AFP

Sumir kjósendur í Flórída telja sig hafa verið blekkta með tillögu um breytingu á stjórnarskrá ríkisins sem kosið verður um samhliða forsetakosningunum í næsta mánuði. Tillagan er sögð eiga að styðja við sólarorku en í ljós hefur komið að hún mun að líkindum hafa þveröfug áhrif.

Stærstu rafveitufyrirtæki Flórída styðja stjórnarskrárbreytinguna sem er sögð „stuðla að notkun sólarorku í Sólskinsríkinu“ eins og ríkið er gjarnan kallað. Verði tillagan hins vegar samþykkt gætu veitufyrirtækin hækkað verð til viðskiptavina sinna sem hafa sett upp sólarsellur á heimilum sínum og dregið þannig úr hvata fyrir þá til að beisla orku sólarinnar.

Sá tilgangur tillögunnar var hins vegar ekki almennt kunnur þangað til dagblaðið The Miami Herald komst yfir hljóðupptöku af sérfræðingi hjá hugveitu í ríkinu sem tengist einu veitufyrirtækinu þar sem hann heyrist lofa „ótrúlega klóka aðferð“ að nota „orðalag um að styðja við sólarorku“ til að afla tillögunni stuðnings. Kallaði hann aðferðina „pólitískt jiu-jitsu“.

Þegar blaðið ljóstraði upp um þetta voru hins vegar sumir kjósendur þegar búnir að kjósa utankjörfundar. Barbara Waks segir við New York Times að hún hafi talið sig vera að styðja endurnýjanlega orkugjafa með því að kjósa með tillögunni.

„Mér finnst ég vera svo vitlaus. Ég kannast við stjórnmálasviðið og ruslið sem er til staðar en þetta fer út fyrir allan þjófabálk,“ segir hún.

Orðalagið blekkjandi

Veitufyrirtækin hafa lagt tugi milljóna dollara í kosningabaráttuna til að fá tillöguna samþykkta. Dagblöð í Flórída, flest verkalýðsfélög, umhverfisverndarsamtök og sólarorkufyrirtæki hafa lagst gegn henni. Fyrrverandi varaforsetaframbjóðandinn Al Gore hefur kallað tillöguna loddaraskap og gagnrýnendur hennar segja hana úlf í sauðargæru.

Aukinn meirihluta, 60% kjósenda, þarf til að tillagan verði samþykkt. Daniel Smith, prófessor í stjórnmálafræði við Flórídaháskóla, segir að raunhæfur möguleiki sé á að tillagan verði samþykkt.

„Hún hefur ágætis líkur á að vera samþykkt, vegna þess að orðalagið er blekkjandi,“ segir hann.

Screven Watson, stjórnarmaður í samtökunum Neytendur fyrir skynsamlega sólarorku, sem er aðalmeðmælandi tillögunnar, segir margar goðsagnir um hana. Fólk ætti að hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að framleiða eigin raforku og lögin ættu að verja fólk sem er ekki með sólarsellur á húsum sínum fyrir því að niðurgreiða fyrir þá sem hafa efni á þeim.

Umfjöllun New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert