Ræddi óvænt við forseta Taívans

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, talaði óvænt við Tsai Ing-wen, forseta Taívans, í síma í dag. Talið er að samtalið gæti vakið reiði hjá kínverskum yfirvöldum. 

„Í samtalinu ræddu þeir náin tengsl landanna á sviði efnahagsmála, stjórnmála og öryggismála,“ sagði í tilkynningu frá skrifstofu Trumps.

„Trump óskaði Tsai forseta einnig til hamingju með að hafa náð kjöri sem forseti Taívans fyrr á þessu ári.“

Frétt mbl.is: Tsai vinnur stórsigur í Taívan

Tsai Ing-wen, forseti Taívans.
Tsai Ing-wen, forseti Taívans. AFP

Ekki er vitað hvor þjóðin átti frumkvæðið að símtalinu, sem er eitt af mörgum sem Trump hefur átt við leiðtoga heimsins síðan hann var kjörinn forseti.

Kínverjar líta á Taívan sem hluta af kínversku yfirráðasvæði og vilja að það verði hluti af Kína. Bandaríkin slitu formlegum stjórnmálasamskiptum við Taívan árið 1979 og líta einnig á landið sem hluta af yfirráðasvæði Kínverja.

Uppfært klukkan 23.45:

Hvíta húsið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að Bandaríkin líti enn á Taívan sem yfirráðasvæði Kína.

„Engin breyting hefur orðið á stefnu okkar,“ sagði talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna.„Við stöndum fast við stefnu okkar um „eitt Kína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert