„Það er gaman að skjóta sumt fólk“

James Mattis þegar hann kom til fundar við Trump um …
James Mattis þegar hann kom til fundar við Trump um miðjan nóvember. AFP

„Óði hundurinn“ James Mattis sem Donald Trump hefur skipað sem varnarmálaráðherra sinn á að baki meira en fjóra áratugi hjá bandaríska landgönguliðinu og er sagður einn áhrifamesti herforingi sinnar kynslóðar. Óhefluð og harðskeytt ummæli hans haft oft sætt gagnrýni.

Trump tilkynnti um skipan Mattis á sigurhátíð sinni í Ohio í gærkvöldi. Bandaríkjaþing þarf þó að samþykkja lög svo herforinginn fyrrverandi geti tekið við embættinu en núgildandi lög kveða á um að þeir sem hafa gegnt herþjónustu geti ekki orðið varnarmálaráðherra fyrr en sjö ár eru liðin frá því að henni lauk.

Frétt Mbl.is: Trump skipar Mattis sem varnarmálaráðherra

Frá því að Mattis hætti hjá hernum hefur hann starfað sem ráðgjafi og félagi Hoover-stofnunarinnar, hugveitu við Stanford-háskóla, samkvæmt frétt Washington Post. Hann hefur verið talsmaður hertra aðgerða gegn Íran og sagt „pólitískt íslam“ vera eina helstu þjóðaröryggisógnina sem steðji að Bandaríkjunum.

Mattis starfaði fyrir Atlantshafsbandalagið (NATO) frá 2007 til 2010 við að reyna að bæta hernaðarlega skilvirkni hernaðarbandalagsins. Fyrr á þessu ári sagði hann NATO „úr sér gengið“ en dró síðar í land og sagðist fylgjandi bandalaginu en öll aðildarríki þess þyrftu að verja að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu sinnar í varnarmál.

Þó að Mattis aðhyllist harðari hernaðarstefnu en ríkisstjórn Obama þá virðist hann hafa náð til Trump varðandi vatnspyntingar sem verðandi forsetinn hafði talað um að taka upp aftur. Trump sagði við New York Times að hann hafi verið hissa þegar Mattis sagðist ekki vera hrifinn af aðferðinni.

„Hann sagði: „Mér hafa aldrei fundist þær gagnlegar“. Hann sagði: „Mín skoðun hefur alltaf verið, gefðu mér sígarettupakka og nokkra bjóra og ég geri betur með það en með pyntingar.“ Mér þótti mikið til þess svars koma,“ sagði Trump við blaðið.

„Verið tilbúnir að drepa alla sem þið hittið“

Það er hins vegar opinská ummæli herforingjans um stríð og manndráp sem hafa ekki hvað síst vakið athygli á honum. Bandarískir fjölmiðlar hafa tekið saman og birt nokkur af umdeilanlegri ummælum hans í gegnum tíðina eftir að tilkynnt var um skipan hans sem varnarmálaráðherra.

Hér eru nokkur ummæli sem hafa verið höfð eftir Mattis, að því er kemur fram í samantekt Politico.

Árið 2005 sagði Mattis að það væri gaman að skjóta menn í Afganistan sem hafi lamið konur fyrir að ganga ekki með blæjur.

„Það er reyndar nokkuð gaman að berjast við þá. Það er helvíti gaman. Það er gaman að skjóta sumt fólk,“ sagði Mattis ennfremur.

Á svipuðum nótum voru skilaboð hans til hóps landgönguliða sem hann sagði að ættu eftir að skemmta sér við skyldustörf.

„Fyrsta skiptið sem maður grandar einhverjum er auðvitað ekki ómerkilegur viðburður. Að því sögðu þá eru sum fífl í heiminum sem eiga bara skilið að vera skotin,“ sagði herforinginn.

Sem herforingi stjórnaði Mattis herdeildum landgönguliða í Afganistan og Írak. Í síðarnefnda landinu ráðlagði hann undirmönnum sínum að vera með varann á sér.

„Verið kurteisir, verið fagmannlegir en verið tilbúnir að drepa alla sem þið hittið,“ sagði hann við landgönguliðana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert