Grænmetisfæði gott fyrir íþróttafólk

Grænmetisfæði er gott fyrir íþróttafólk.
Grænmetisfæði er gott fyrir íþróttafólk. mbl.is/Getty Images/iStockphoto

Íþróttamenn sem eru grænmetisætur standa sig jafn-vel eða betur en alæturnar, samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn.

Ímynd íþróttafólks er gjarnan sú að það borði mikið af próteini og það myndi frekar skaða ferilinn en hitt að vera grænmetisæta. Þetta þarf alls ekki að vera svo og ný rannsókn hefur leitt í ljós að íþróttamenn sem eru grænmetisætur standi sig jafn-vel eða betur.

Rannsóknin birtist í tímaritinu Nutrients og skoðaði muninn á frammistöðu íþróttafólks sem neytir aðallega matvara úr jurtaríkinu og alæta. Sérstaklega var verið að skoða súrefnisupptöku en rannsóknin var gerð á vegum Háskólans í Arizona í Bandaríkjunum. Þátttakendur héldu matardagbók og voru síðan prófaðir m.a. á hlaupabretti.

Að stærstum hluta var ekki mikill munur á þessum tveimur hópum. Súrefnisupptakan var svipuð hjá körlunum en konurnar skáru sig úr. Þær konur sem neyttu grænmetisfæðis náðu 13% meiri hámarkssúrefnisupptöku en alæturnar, sem rannsakendunum þótti áhugavert.

Margt frægt íþróttafólk hefur verið vegan eða grænmetisætur.

Carl Lewis: Einn af allra bestu frjálsíþróttamönnum sögunnar er vegan. Hann hefur hreppt tíu verðlaun á Ólympíuleikum. Hann sagði í viðtali við Opruh Winfrey árið 2012 að hann hefði náð sínum besta árangri eftir að hann tók upp vegan-mataræði seint á þrítugsaldri. Hann hljóp besta 100 metra hlaup lífs síns, 9,86 sekúndur á HM í Tókýó árið 1991 eftir að hann gerðist vegan.

Kendrick Farris: Hann keppir í lyftingum fyrir Bandaríkjamenn og tók þátt í Ólympíuleikunum í sumar í Ríó í Brasilíu. Farris gerðist vegan árið 2014. Hann sló Bandaríkjametið í sínum þyngdarflokki í maí og hafnaði í 11. sæti í Ríó.

Surya Bonaly: Þessi franska skautadrottning gleymist seint. Hún er þrefaldur silfurverðlaunahafi á heimsmeistaramótum (1993-1995) og varð fimmfaldur Evrópumeistari (1991-1995). Hún er grænmetisæta og berst ötullega gegn misnotkun á dýrum.

Edwin Moses: Þessi Bandaríkjamaður vann til gullverðlauna í 400 m grindahlaupi á Ólympíuleikunum 1976 og 1984. Hann vann 122 hlaup í röð á árunum 1977 til 1987 og sló fjögur heimsmet. Hann er grænmetisæta og friðarsinni.

Martina Navratilova: Hún er líka grænmetisæta og er dugleg að vekja athygli á þeim lífsstíl. Hún er einn besti tennisleikari sögunnar og vann til að mynda Wimbledon níu sinnum. Hún var á toppnum á heimslistanum í einliðaleik í 332 vikur og 237 vikur í tvíliðaleik og er eini tennisleikarinn í sögunni sem hefur verið á toppnum í báðum flokkum í meira en 200 vikur.

Nánar er fjallað um þetta í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert