Óskar eftir náðun Bandaríkjaforseta

Bowe Bergdahl áður en hann var handsamaður í Afganistan.
Bowe Bergdahl áður en hann var handsamaður í Afganistan. AFP

Bandarískur hermaður sem er ásakaður um brotthlaup hefur óskað eftir náðun frá Barack Obama Bandaríkjaforseta. Liðþjálfinn Bowe Bergdahl yfirgaf lið sitt í Afganistan og var fangi talibana um fimm ára skeið.

Í frétt BBC kemur fram að Bergdahl sé sakaður um að hafa sett liðsfélaga sína í hættu. Á hann yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi fyrir brotthlaup, verði hann sakfelldur í herrétti.

Bergdahl hefur haldið því fram að hann hafi yfirgefið liðsveit sína í Afganistan án leyfis til að vekja athygli á slakri forystu en ekki hefur tekist að útskýra nákvæmlega hvernig hvarf hans bar að. Mikil leit stóð yfir að honum á sínum tíma og hefur því meðal annars verið haldið fram að bandarískir hermenn hafi látið lífið í tengslum við hana.

Bergdahl hvarf í Afganistan árið 2009 og var leystur úr höndum talibana í maí 2014 í skiptum fyrir fimm fanga úr hópi talibana sem höfðu verið í haldi í bandaríska Guantanamo-fangelsinu.

Obama fagnaði skiptunum á sínum tíma en þau voru harðlega gagnrýnd af mörgum þar sem þau þóttu ganga gegn stefnu Bandaríkjanna um að semja ekki við hryðjuverkamenn. Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur fordæmt aðgerðirnar og meðal annars sagt opinberlega að Bergdahl hefði átt að vera tekinn af lífi.

Forseti Bandaríkjanna getur lögum samkvæmt náðað einstaklinga áður en þeir eru sakfelldir. Dæmi eru um að fyrri forsetar hafi nýtt sér þetta vald en til að mynda náðaði Gerald Ford forvera sinn Richard Nixon árið 1974.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert