23 ára maður grunaður um morðin

Þrjár konur voru skotnar til bana fyrir utan veitingastaðinn.
Þrjár konur voru skotnar til bana fyrir utan veitingastaðinn. Ljósmynd/Skjáskot af vef Yle

23 ára maður er grunaður um að hafa skotið þrjár konur til bana fyrir utan veitingastað í bænum Imatra í Finnlandi í nótt. Maðurinn, sem býr í bænum, hefur áður komið við sögu lögreglunnar vegna ofbeldisglæpa en ekki er vitað um ástæðuna fyrir verknaðinum.

Áður var talið að tvær konur og einn maður hafi verið skotin til bana.

Frétt mbl.is: Þrjú skotin til bana í Finnlandi

Konurnar voru, samkvæmt lögreglunni, skotnar í höfuðið og annars staðar í líkamann með riffli. Fundust þær látnar fyrir utan veitingastaðinn.

Maðurinn var handsamaður af lögreglunni skömmu eftir glæpinn, nálægt veitingastaðnum. Hann sýndi engan mótþróa og er sagður hafa játað verknaðinn. Riffillinn sem notaður var við verknaðinn var ekki í hans eigu.

Grunur leikur á um að konurnar þrjár hafi verið drepnar af handahófi. 

Lögreglan heldur blaðamannafund í hádeginu vegna málsins.

Imatra er í suðausturhluta Finnlands, skammt frá landamærunum við Rússland. Íbúar bæjarins eru tæplega 30 þúsund talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert