Minntust Fidels Castro í Santiago

Minningarathöfn um fyrrverandi leiðtoga Kúbu, Fidel Castro, var haldin í borginni Santiago á Kúbu í gærkvöldi  en Castro var níræður þegar hann lést 25. nóvember. Tugir þúsunda Kúbverja sóttu athöfnina auk þjóðarleiðtoga Venesúela, Nikaragva og Bólivíu, að því er fram kemur í frétt BBC.

Raul Castro, núverandi leiðtogi Kúbu og bróðir Fidels Castro, leiddi athöfnina og sór þess eið að halda í heiðri markmiðum byltingarinnar sem Fidel Castro fór fyrir og steypti ríkisstjórn Fulgencio Batista af stóli í janúar 1959. Bandaríkin studdu ríkisstjórn Batista og var Fidel lofaður fyrir að skila Kúbu aftur til fólksins.

Fjögurra daga heiðursfylgd lauk í borginni Santiago sem er þekkt …
Fjögurra daga heiðursfylgd lauk í borginni Santiago sem er þekkt sem fæðingarstaður byltingarinnar. AFP

Raul tilkynnti við athöfnina að hvorki megi nefna minnisvarða eða vegi eftir Castro en leiðtoginn fyrrverandi hafði sjálfur óskað eftir því. „Leiðtogi byltingarinnar var eindregið á móti hvers konar birtingarmynd eða dýrkun á persónu hans,“ sagði Raul Castro. Því verða engar styttur eða minnisvarðar reistir á Kúbu í minningu hans.

Frelsishetja eða einræðisherra?

Duftker með ösku Fidel Castro verður jarðsett í borginni Santiago í dag en borgin er þekkt sem fæðingarstaður kúbversku byltingarinnar. Duftkerið kom til Santiago í gær eftir fjögurra daga ferðalag frá höfuðborginni Havana.

Raul Castro ávarpaði gesti á minningarathöfn um bróður sinn í …
Raul Castro ávarpaði gesti á minningarathöfn um bróður sinn í gær. AFP

„Lengi lifi Fidel!“ og „ég er Fidel!“ var hrópað af þúsundum Kúbverja þegar heiðursfylgd Fidels Castro fór eftir götum borgarinnar í gær.

Tania Maria Jimenez var meðal þeirra sem fylgdust með þegar heiðursfylgd Castro átti leið hjá sögulegu hermannaskálunum Moncada í Santiago en árásin á Moncada er talin til marks um upphaf byltingarinnar. Í samtali við Reuters sagði Jimenez: „Við öll sem elskuðum Fidel, litum á hann sem föður okkar. Hann ruddi brautina og fólkið mun fylgja honum.“

Fidel Castro hefur þó verið gagnrýndur af öðrum og meðal annars kallaður einræðisherra og segja andstæðingar að ríkisstjórn hans hafi ekki látið mótstöðu og mótþróa við stjórnina viðgangast.

Tugir þúsunda sóttu minningarathöfnina til að heiðra minningu fyrrum forseta …
Tugir þúsunda sóttu minningarathöfnina til að heiðra minningu fyrrum forseta Kúbu. AFP
Fjöldi fólks kom saman í borginni Santiago til að fylgjast …
Fjöldi fólks kom saman í borginni Santiago til að fylgjast með heiðursfylgd Fidel Castro. AFP
„Ég er Fidel.“
„Ég er Fidel.“ AFP
„Að eilífu, foringi.“
„Að eilífu, foringi.“ AFP
AFP
„Takk Fidel.“
„Takk Fidel.“ AFP
Duftkeri með ösku Fidel Castro var fylgt um borgina Santiago …
Duftkeri með ösku Fidel Castro var fylgt um borgina Santiago í gær. Aska Castro verður jarðsett í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert