Neyðarástand vegna flóðahættu á Spáni

Miklar rigningar í Piemonte-héraðinu á Ítalíu ollu einnig flóðum á …
Miklar rigningar í Piemonte-héraðinu á Ítalíu ollu einnig flóðum á svæðinu í lok nóvember. AFP

Yfirvöld í Costa del Sol-héraðinu á suðurströnd Spánar hafa lýst yfir neyðarástandi vegna flóðahættu en miklar rigningar hafa gengið yfir svæðið síðustu daga. Einn hefur þegar dáið í flóðunum og klukkan 13 að staðartíma í dag höfðu 732 atvik verið tilkynnt vegna flóðanna, flest þeirra tengd vatnsleka í bílskúrum, á heimilum og í húsakynnum fyrirtækja og stofnana.

Samkvæmt frétt El País fannst lík 26 ára gamallar konu á neðri hæð á skemmtistað í borginni Malaga í morgun en svæðið hefur orðið illa úti í flóðinu. Stjórnmálamenn í héraðinu og víðar hafa lýst yfir áhyggjum vegna skemmda og þeirrar hættu sem steðjar að fólki.

Staðan er verst í bæjunum Malaga, Estepona, Marbella og Alhaurín de la Torre sem allir hafa virkjað neyðaráætlanir sínar til að bæta samskipti milli hjálparstofnana.

Almannavarnir á svæðinu hafa þegar þurft að bjarga fjölmörgum úr hættu. Á Aljaima svæðinu höfðu 20-25 einstaklingar flúið upp á þak til að forðast vatnið sem safnast hafði saman í húsum þeirra. Var nágrönnum þeirra einnig komið til hjálpar og gert að yfirgefa heimili sín. Þá var fjölskyldu með tíu börn í bænum Alhaurín de la Torre bjargað úr álíka aðstæðum.

Almannavarnir (Guardia Civil) hafa deilt myndum á Facebook-síðu sinni en þar segir: „Sendum styrk til samstarfsfélaga okkar sem eru að vinna og gefa allt sitt til að hjálpa þeim sem orðið hafa fyrir áhrifum rigningarinnar sem gengið hefur yfir Malaga á síðustu tímum.“

Rigningarnar haft þó einnig haft áhrif víðar á Spáni. Til að mynda hafa neyðarlínunni í Andalúsíu borist fjölmörg símtöl vegna umverðarvandamála tengdum stórum pollum, grjóthruni og lausum greinum og trjám. Þá hefur ástandið haft áhrif á lestarkerfin í Cadiz- og Seville-héruðunum.

Líklegt er talið að skemmdir á svæðinu verði gríðarlegar en að því er fram kemur í frétt El País hefur lítið verið um tilkynningar um mannskaða eða meiðsli fram til þessa.

Hægt er að fylgjast með ástandinu á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #trombaMLG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert