Pence: Einfaldlega „kurteisisspjall“

Samsett mynd af Donald Trump og Tsai Ing-wen.
Samsett mynd af Donald Trump og Tsai Ing-wen. AFP

Mike Pence, verðandi varaforseti Bandaríkjanna, segir að samtal Donald Trump, nýkjörins Bandaríkjaforseta, við Tsai Ing-wen, forseta Taívans, hafi einfaldlega verið „kurteisisspjall“.

„Þetta var ekkert annað en að taka við kurteisisspjalli frá lýðræðislega kjörnum leiðtoga,“ sagði Pence sem var gestur í þættinum This Week, sem er sýndur á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Pence var spurður út í símtal forsetanna sem átti sér stað á föstudag, en þetta var í fyrsta sinn sem forseti Bandaríkjanna ræðir við forseta Taívans með beinum hætti frá árinu 1979. Þá slitu bandarísk yfirvöld formlega stjórnmálasambandi við Taívan. Símtalið reitti stjórnvöld í Kína til reiði, en Kínverjar líta á Taívan sem uppreisnarhérað. 

Samskipti Bandaríkjanna við Taívan hafa verið vinsamleg en Bandaríkin líta á kínversk yfirvöld sem hin formlegu stjórnvöld í Kína, og þar með Taívan. 

Mike Pence vill meina að málið sé ekki svo alvarlegt.
Mike Pence vill meina að málið sé ekki svo alvarlegt. AFP

Pence segir að Trump hefði svarað forsetanum sem hefði einfaldlega óskað honum til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum og óskað honum góðs gengis. Málið sé ekki flóknara en það. 

Spurður hvort málið muni draga dilk á eftir sér, þ.e. varðandi stefnu Kínverja um „eitt Kína“ svaraði Pence: „Við tökum á því eftir 20. janúar.“ Hann vísaði til þeirrar dagsetningar þegar Trump mun sverja embættiseið sem forseti Bandaríkjanna og taka formlega við keflinu af Barack Obama, núverandi forseta.

Fram hefur komið í kínverskum ríkisfréttamiðlum að reynsluleysi Trumps hafi leitt til þess að hann tók símtalið. Kínverjar hafa hins vegar sagt að verði reglan um „eitt Kína“ brotin muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samskipti Kína og Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert