„Sigurinn er súrefni fyrir Evrópu“

Norbert Hofer og Alexander Van der Bellen.
Norbert Hofer og Alexander Van der Bellen. AFP

„Ég er mjög vonsvikinn að þetta gekk ekki upp.“ Þetta segir Nor­bert Hofer, for­seta­efni Frels­is­flokks­ins, í Facebook-færslu eftir að hafa tapað í forsetakosningunum í Austurríki. Í sömu færslu óskar hann jafnframt mótframbjóðanda sínum sem sigraði, Alexander Van der Bellen, til hamingju og óskar honum góðs gengis. 

Það má segja að Evrópa andi léttar eftir að hægriöfgamaðurinn Hofer hlaut ekki brautargengi í forsetakosningunum. Hinir ýmsu þjóðarleiðtogar hafa lýst yfir ánægju sinni yfir sigri  Van der Bellen.

„Þetta er góður fyrirboði um að stuðningur við pópúlisma í Evrópu sé að minnka,“ segir Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands. Hann segir jafnframt að í ljósi ástandsins í Evrópu núna þá þurfi hún svo sannarlega á góðum fréttum að halda og því séu þessar kærkomnar. Á næsta ári eru kosningar í Þýskalandi og þar líkt og víða í Evrópu óttast margir hægriöfgasinna sem hefur vaxið ásmegin á síðustu árum.

Evrópusambandið ánægt

Evrópusambandið fagnar niðurstöðunni enda hafði Hofer lýst því yfir að efna til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um úr­sögn úr Evr­ópu­sam­band­inu ef brott­hvarf Bret­lands úr sam­band­inu myndi leiða til auk­inn­ar miðstýr­ing­ar frá Brus­sel. Donald Tusk, for­seti Evr­ópu­sam­bands­ins, sagði þetta góðar fréttir sem myndu styrkja Evrópusambandið. Forseti Evrópuþingsins, Martin Schulz, tók í sama streng og Tusk en bætti við: „Sigur Van der Bellen sýnir að bakslag er komið í pópúlismann og þjóðernishyggju í Evrópu.

„Sigurinn er súrefni fyrir Evrópu sem stendur ógn af öfgahægriöflum,“ segir Alexis Tsipras, utanríkisráðherra Grikklands, á Twitter.

François Hollande, forseti Frakklands, tók í sama streng og utanríkisráðherra Grikklands. Það sama er ekki hægt að segja um samlanda Hollande, forsetaframbjóðandann Marine Le Pen. Hún brást við með því að segja að Frels­is­flokk­ur Hofers hafi háð góða bar­áttu en flokk­ur­inn myndi standa uppi sem sig­ur­veg­ari næst.

Frétt mbl.is: Valls fagn­ar kjöri Van der Bell­en

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert