11 farast í eldsvoða á hóteli í Karachi

11 manns fórust hið minnsta og rúmlega 70 slösuðust í eldsvoða á fjögurra stjörnu hótelinu Regent Plaza í borginni Karachi í Pakistan snemma í morgun. Flestir gesta voru í fastasvefni þegar eldurinn kom upp og króuðust margir inni vegna skorts á reykskynjurum og neyðarútgönguleiðum.

Upptök eldsins voru í eldhúsi hótelsins. Hann breiddist hann síðan um bygginguna alla og gripu sumir hótelgesta til þeirra ráða að hnýta saman lök og búa þannig til reipi til að komast út úr þeim hlutum hótelsins sem eldurinn hafði lokað af.

„Við bundum saman lök til að búa til reipi og notuðum það til að komast niður af fjórðu hæð,“ hefur AP-fréttastofan eftir Khalid Mehmood sem særðist í eldsvoðanum. „Reipið var svo ekki nógu langt, þannig að við urðum að láta okkur detta hálfa leiðina.“

AP hefur þá eftir Waseem Akhtar, borgarstjóra Karachi, að engir neyðarútgangar hafi verið á hótelinu og eins hafi reykskynjarar verið of fáir.

Seemi Jamali, læknir við Jinnah-háskólasjúkrahúsið, sagði að komið hefði verið með 75 manns sem hefðu slasast í eldinum á sjúkrahúsið. Ástand flestra væri stöðugt. „Það eru aðeins fimm sjúklingar enn á gjörgæsludeild,“ sagði hún.

Hótelgestir á Regent Plaza gripu margir til þess ráðs að …
Hótelgestir á Regent Plaza gripu margir til þess ráðs að binda saman lök til að komast út úr herbergjum sínum. 11 fórust í eldsvoðanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert