Bæta mörgum núllum á seðlana

Ríkisstjórn Venesúela mótmælt.
Ríkisstjórn Venesúela mótmælt. AFP

Stjórnvöld í Venesúela hafa ákveðið að láta prenta nýja peningaseðla til þess að bregðast við verðbólgunni í landinu og verður sá stærsti að upphæð 20 þúsund bólivars.

Verðmæti seðilsins verður um 5 Bandaríkjadalir. Verðmætasti seðillinn sem er í gildi eins og staðan er í dag er 100 bólivars en verðmæti hans er innan við 3 bandarísk sent miðað við núverandi gengi.

Fram kemur í frétt AFP að Seðlabanki Venesúela hafi sent frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram hafi komið að nýju seðlarnir yrðu teknir í notkun 15. desember. Nýju seðlarnir yrðu að upphæð 500 til 20.000 bólivars. Minni upphæðir verða í myntformi.

Lækkandi olíuverð hefur leitt til minni gjaldeyristekna í Venesúela sem hefur þýtt að innfluttar vörur hafa hækkað í verði. Verðbólga í landinu er mjög há en síðasta opinbera talan í þeim efnum var birt á síðasta ári og var verðbólgan þá 180%.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reiknar með að verðbólgan verði 475% í lok þessa árs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert