Fjölda flóttamanna bjargað um helgina

Bátar flóttamannanna eru oft illa útbúnir.
Bátar flóttamannanna eru oft illa útbúnir. AFP

Búið er að bjarga yfir 1.300 flóttamönnum á Miðjarðarhafinu á síðustu tveimur sólarhringum. 16 lík hafa fundist á sama tíma, samkvæmt upplýsingum frá ítölsku strandgæslunni.

Eitt skip frá strandgæslunni kom auga á ellefu lík á báti sem hafði lent í vandræðum á ferð sinni. Fimm aðrir flóttamenn höfðu látið lífið á öðrum bátum á leið sinni frá Afríku til Ítalíu.

„Tvær konur létust vegna ofkælingar þrátt fyrir mikinn viðbúnað. Við erum enn og aftur harmi slegin,“ skrifuðu Læknar án landamæra á Twitter.

Ekki kom fram hvers vegna hitt fólkið lést. Oft tekur ferðalagið á en flóttafólkið er oft máttfarið og þreklítið þegar það heldur af stað í ferðina yfir Miðjarðarhafið.

Samtals var 285 flóttamönnum bjargað á laugardag, 791 á sunnudag og 231 í dag. Allir voru þeir á litlum bátum sem ekki eru vel búnir til margra daga siglingar.

Meðal þeirra sem var bjargað var fjöldi sýrlenskra fjölskylda sem ferðuðust með ung börn. Meirihluti þeirra 173 þúsund flóttamanna sem hefur komið til Ítalíu í ár hefur komið frá vesturhluta Afríku. 4.700 hafa látið lífið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið í ár samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert