Gaf skosku þorpi aleiguna

Þýskir SS-hermenn teknir höndum í Frakklandi.
Þýskir SS-hermenn teknir höndum í Frakklandi. Wikipedia

Fyrrverandi þýskur hermaður kaus að arfleiða þorp í Skotlandi að aleigunni vegna þess hversu vel var farið með hann þegar honum var haldið föngnum í fangabúðum í nágrenni þorpsins á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Frá þessu er greint í frétt AFP.

Heinrich Steinmeyer, fyrrverandi liðsmaður Waffen-SS sveita þýskra nasista, var tekinn höndum í Frakklandi þegar hann var 19 ára gamall og fluttur í Cultybraggan-fangabúðirnar í nágrenni skoska þorpsins Comrie. Börn úr þorpinu vinguðust við hann í gegnum girðingu fangabúðanna og smygluðu honum eitt sinn úr búðunum til þess að hann gæti horft á kvikmyndasýningu eftir að þau komust að því að hann hefði aldrei séð kvikmynd. Vinskapur sem hélst áfram eftir stríðið.

Eignir Steinmeyers eru metnar á sjötta tug milljóna króna og verður féð samkvæmt vilja hans notað til þess að bæta kjör aldraðra íbúa Comrie. Steinmeyer lést árið 2013 en nokkurn tíma tók að ganga frá uppgjöri á búi hans. Meðal annars að selja íbúð hans. 

„Mig langar að koma á framfæri þakklæti mínu til Skota fyrir góðvild þeirra og örlæti sem mér var sýnd í Skotlandi þegar ég var stríðsfangi og allar götur síðan,“ sagði í erfðaskrá hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert