Leita stúlkunnar sem tísti frá Aleppo

Bana Alabed ásamt bræðrum sínum. Alabed hefur verið dugleg að …
Bana Alabed ásamt bræðrum sínum. Alabed hefur verið dugleg að lýsa lífinu í Aleppo á Twitter. Skjáskot/Twitter

Búið er að loka Twitter-reikningi hinnar sjö ára gömlu Bana Alabed, sem hefur vakið athygli fjölmiðla og samfélagsnotenda fyrir lýsingar sínar á lífinu í austurhluta Aleppo á umsáturstímum að því er fréttvefur BBC greinir frá.

Alabed lýsti lífinu í Aleppo á ensku í Twitter-skilaboðunum sem hún skrifaði með hjálp móður sinnar sem er kennari. Twitter-reikningur hennar @alabedbana var kominn með rúmlega 100.000 fylgjendur.

Í gær, þegar sýrlenski stjórnarherinn tók yfir enn fleiri hverfi í austurhluta borgarinnar, var reikningunum hins vegar lokað. Lokaskilaboðin komu frá móður hennar: „Við erum viss um að herinn er núna að ná okkur. Sjáumst aftur síðar kæri heimur. Verið þið sæl – Fatemah,“ sagði í skilaboðunum.

Alabed hefur verið búsett í austurhluta Aleppo ásamt fjölskyldu sinni, en íbúar þar hafa lifað við umsátursástand undanfarið misseri. Undanfarnar vikur hefur sýrlenski stjórnarherinn staðið fyrir hörðum árásum á borgarhlutann sem hann reynir að ná á sitt vald úr höndum uppreisnarmanna.

Þessi sjö ára stúlka hefur verið dugleg að beina sjónum umheimsins að þeim aðstæðum sem almennir borgarar í austurhlutanum hafa þurft að búa við. Í samtali við fréttavef BBC í október sagði Fatemah að dóttir sín hafi viljað að umheimurinn hlustaði á þau.

Í skilaboðum sem hún sendi frá sér í nóvember sagði hún: „Eftir kvöldið í kvöld eigum við ekkert heimili. Það féll á það sprengja og það er núna rústir einar. Ég sá fólk deyja og dó næstum sjálf.“

Önnur skilaboð greina frá því að hún hafi misst vin þegar sprengja féll á hans heimili.

JK Rowling, höfundur bókanna um Harry Potter, er ein þeirra sem fylgst hafa með lífi fjölskyldunnar og sendi Rowling Alabed Harry Potter-bókaröðina í rafbókaformi eftir að hún greindi frá því að hún nyti þess að lesa „til að gleyma stríðinu“.

Rowling hefur endurbirt nokkur skilaboð Alabed eftir að Twitter-reikningi hennar var lokað og óskað eftir upplýsingum um hvar stúlkan sé nú niðurkomin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert