Stuðningur við pyntingar stóreykst

Mun fleiri virðast nú telja að réttlætanlegt sé að pynta …
Mun fleiri virðast nú telja að réttlætanlegt sé að pynta stríðsfanga. AFP

Mun fleiri telja nú að heimilt ætti að vera að pynta fanga í stríði en áður samkvæmt nýrri skoðanakönnun Alþjóðlega Rauða krossins. Innan við helmingur svarenda hafnaði pyntingum alfarið en hlutfallið var 66% í sambærilegri könnun sem gerð var árið 1999.

Könnunin náði til 17.000 manns í sextán löndum, þar á meðal fimm fastaþjóða öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna auk Sviss og tíu stríðshrjáðra ríkja eins og Suður-Súdan, Írak og Nígeríu. Flestir töldu að alþjóðleg lög ættu að gilda um stríðsrekstur og að bannað ætti að vera að ráðast handahófskennt á þéttbýl svæði, sjúkrahús eða heilbrigðisstarfsfólk.

Aðeins 48% voru hins vegar andsnúin pyntingum á föngum til að komast yfir hernaðarlega mikilvægar upplýsingar. Heil 36% sögðu að þær ættu að vera leyfilegar en 16% voru ekki viss í sinni sök. Í könnuninni árið 1999 töldu 28% það réttlætanlegt að beita pyntingum og sex prósent voru óviss.

Peter Maurer, forseti alþjóðanefndar Rauða krossins, segir niðurstöður könnunarinnar sýna að kveða þurfi að kveða þurfi skýrt að orði um að hvers kyns pyntingar séu bannaðar.

„Við gerum óvini okkar að skrattanum á eigin ábyrgð. Jafnvel í stríði eiga allir það skilið að komið sé mannúðlega fram við þá,“ segir hann.

Töluverður munur var á afstöðu fólks í ólíkum löndum. Þannig töldu 78% íbúa stríðshrjáðu ríkjanna það óréttlætanlegt að ráðast á vígamenn óvina á svæðum þar sem mikil hætta væri á að óbreyttir borgarar létu lífið en aðeins 50% ríkjanna sem eiga fastafulltrúa í öryggisráðinu.

Munurinn var minni þegar spurt var um pyntingar. Hæst var hlutfall þeirra sem voru fylgjandi pyntingum í Nígeríu, heil 70%. Þar á eftir komu Ísrael þar sem 50% töldu pyntingar á óvinum réttlætanlegar. Í Bandaríkjunum var hlutfallið 46%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert