14 farast í flóðum í Taílandi

Hópur fólks fylgist með er björgunarsveitir leita tveggja drengja sem …
Hópur fólks fylgist með er björgunarsveitir leita tveggja drengja sem hurfu í skyndiflóði í Pattani í Taílandi. AFP

Fjórtán manns hið minnsta hafa farist í flóðum í kjölfar úrhellisrigningar í Taílandi undanfarna daga. Taílensk stjórnvöld hafa skilgreint stóran hluta flóðasvæðanna sem hamfarasvæði og hafa lýst yfir neyðarástandi í 11 héruðum í sunnanverðu landinu, en úrhellisrigning og aurskriður hafa m.a. rofið járnbrautarlínur í suðurhluta landsins.

Meðal þeirra staða sem hafa farið illa út úr flóðunum eru vinsælir ferðamannastaðir á borð við Krabi, Koh Samui og Koh Pha-nangan.

Flóðin hafa áhrif á tæplega 600.000 manns, sagði í yfirlýsingu frá taílenska innanríkisráðuneytinu. Fjórtán hafi farist, þrír til viðbótar hafi slasast og þá sé eins saknað.

Svo miklar rigningar á þessum árstíma eru óvanalegar á Taílandi, en desember og janúar eru vinsælustu ferðamannamánuðir ársins og því einkar mikilvægir fyrir efnahag ríkisins, sem hefur átt erfitt með að ná sér á strik eftir að herinn tók yfir stjórn landsins árið 2014.

„Það hefur verið meiri úrhellisrigning en venjulega, sem hefur valdið erfiðleikum með niðurföll,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Nongyao Jirundom hjá ferðamálayfirvöldum á Samui-eyju.

Mikil flóð urðu í Taílandi 2011 sem kostuðu rúmlega 900 manns lífið og ollu miklum truflunum á iðnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert