Lögreglan laug viljandi að fjölmiðlum

Lögreglubíll í Kaliforníu. Myndin er úr safni og tengist efni …
Lögreglubíll í Kaliforníu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Sjónvarpsstöð í Kaliforníu sagði frá tveimur mönnum sem hefðu verið handteknir fyrir að villa á sér heimildir og verið afhentir innflytjendayfirvöldum fyrr á þessu ári. Í ljós hefur síðan komið að fréttin var uppspuni lögreglunnar sem ætlað var að vernda tvo menn sem glæpagengi ætlaði að myrða.

Lögreglan í Santa María í Kaliforníu var að rannsaka hættulega glæpagengið MS-13 í febrúar þegar hún komst að því með símhlerunum að félagar þess ætluðu að myrða mennina tvo. Þeim var snarlega komið fyrir í umsjá lögreglunnar þeim til verndar. Lögreglan vildi hins vegar koma í veg fyrir að glæpagengið réðist á fjölskyldur þeirra í staðinn og að það yrði þess áskynja að verið væri að hlera síma.

Þess vegna birti lögreglan fréttatilkynningu þar sem hún laug því að mennirnir tveir hefðu verið handteknir fyrir að framvísa fölsuðum persónuskilríkjum og þeir verið afhentir innflytjenda- og tollayfirvöldum.

„Við höfðum siðferðislega og lagalega skyldu til að grípa inn í og bjarga þessu fólki áður en það væri skotið og drepið,“ sagði lögreglustjórinn Ralph Martin þegar hann varði ákvörðun sína um að ljúga að fjölmiðlum.

Grefur undan trausti á milli lögreglu og fjölmiðla

Lögregluaðgerðin gegn glæpagenginu bar á endanum þann árangur að sautján félagar í því voru handteknir.

Þegar fjölmiðlar gerðu sér grein fyrir að logið hefði verið að þeim og fjallað var um það fór Martin ekki í grafgötur um hvað hann hefði gert.

„Við notuðum fjölmiðla,“ sagði hann og útilokaði ekki að ljúga aftur að fjölmiðlum ef aðstæður krefðust þess.

Í umfjöllun Washington Post kemur fram að ekki sé ólöglegt að beita þessari aðferð en það sé hins vegar sjaldgæft. Alríkislögreglan FBI hafi notað svipaða aðferð þegar hún bjó til upplogna AP-frétt árið 2007 til þess að komast inn í tölvu fimmtán ára drengs sem hafði sent sprengjuhótanir til stjórnenda og starfsfólks menntaskólans síns með spilliforriti.

Varaforseti Alþjóðasambands lögreglustjóra segir það geta skapað vandamál að lögreglan ljúgi að fjölmiðlum. Það valdi vantrausti á milli þeirra en lögreglan reiði sig á fjölmiðla til að greina rétt frá staðreyndum til að fá aðstoð almennings.

KSBY-sjónvarpsstöðin sem sagði upphaflegu fréttina af handtöku mannanna sem aldrei var sagðist í yfirlýsingu hafa miklar áhyggjur af aðgerðum lögreglustjórans.

„Þó að við styðjum af öllum mætti tilraunir lögreglu til að vernda borgara í hættu höfum við áhyggjur af því blekkingar af þessu tagi geti grafið undan trausti íbúanna og áhorfenda okkar,“ segir stöðin.

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert