Roman Polanski ekki framseldur

Leikstjórinn Roman Polanski.
Leikstjórinn Roman Polanski. AFP

Hæstiréttur Póllands hefur hafnað beiðni um að framselja Óskarsverðlaunaleikstjórann Roman Polanski til Bandaríkjanna. Þar á hann yfir höfði sér dóm vegna nauðgunar.

Polanski, sem er 83 ára, er með franskt og pólskt ríkisfang og býr í Frakklandi. Hann var ekki viðstaddur þegar úrskurðurinn var kveðinn upp.

Zbibniew Ziobro, dómsmálaráðherra Póllands, áfrýjaði máli frá síðasta ári til hæstaréttar þar sem úrskurðað var að Polanski yrði ekki framseldur.

Frétt mbl.is: Reyna aftur að framselja Polanski

Þar með er þætti Póllands í málinu lokið. Ef hæstiréttur hefði ekki hafnað framsalsbeiðninni hefði neðri dómstóll getað úrskurðað að Polanski yrði framseldur. Pólska lögreglan hefði samt sem áður ekki getað framfylgt úrskurðinum með því að fljúga með leikstjórann til Bandaríkjanna nema hann sneri aftur til Póllands frá Frakklandi, því Frakkar framselja ekki borgara sína.

Polanski er eftirlýstur í Bandaríkjunum eftir að hafa verið ákærður árið 1977 fyrir að hafa nauðgað Samantha Gailey eftir ljósmyndatöku í Los Angeles. Hún var 13 ára en Polanski  43.

Leikstjórinn játaði glæpinn en flúði land áður en dómur var kveðinn upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert