Voru skildir eftir í sjónum

Mörg þúsund flóttamenn hafa látið lífið á leiðinni yfir Miðjarðarhafið …
Mörg þúsund flóttamenn hafa látið lífið á leiðinni yfir Miðjarðarhafið í ár. AFP

Europol hyggst rannsaka mesta manntjón á ferðum flóttamanna á árinu sem senn er á enda. Talið er að rúmlega 500 manns hafi látið lífið þegar bátur sökk á leið frá Afríku til Evrópu 9. apríl síðastliðinn. 

Newsnight fullyrðir að báturinn hafi lagt af stað frá Egyptalandi. Yfirmaður Europol sagði að málið væri „óþægilegt.“ Hann fagnaði rannsókn fréttamanna Reuters, BBC og Newsnight á málinu og sagði að það yrði skoðað ofan í kjölinn.

Borguðu smyglurum háar fjárhæðir

Sameinuðu þjóðirnar telja að 4.663 hafi látið lífið í tilraunum sínum til að komast frá Afríku til Evrópu á báti yfir Miðjarðarhafið. Er það mesti fjöldi flóttamanna sem hefur látist á sjóleiðinni frá upphafi en oft þegar skip farast á leiðinni eru málin ekki rannsökuð til hlítar.

37 manns var bjargað úr skipskaðanum í byrjun apríl en talið er að rúmlega 500 manns hafi látið lífið. Allir höfðu flóttamennirnir borgað um 2.000 dollara (221 þúsund íslenskar krónur) til smyglara í von sinni um að komast til Ítalíu.

Samkvæmt upplýsingum Newsnight lagði aðalbáturinn af stað í ferðina örlagaríku seint um kvöld rétt austan við Alexandriu í Egyptalandi. Um klukkan 2 um nóttina, aðfaranótt 9. apríl, var 200 flóttamönnum bætt í bátinn en fyrir voru 300 í bátnum.

Eftirlifendum hótað með hníf

Þegar auknum fjöldanum var bætt í bátinn hvolfdi hann. Samkvæmt vitnisburði eftirlifenda þá sigldi hinn báturinn sér í burtu þegar ljóst var í hvað stefndi. Varð það til þess að um 100 manns sem voru á lífi í sjónum drukknuðu. Einn eftirlifenda sagði fjölmiðlum að smyglari hefði hótað honum með hníf þegar hann ætlaði að hjálpa félaga sínum.

Það var ekki fyrr en viku eftir slysið sem ítalska strandgæslan fékk fréttir af málinu. Smyglararnir höfðu skipað þeim sem eftir voru á bátnum til að segja að þeir kæmu frá Líbíu, til að koma í veg fyrir rannsókn í Egyptalandi. 

Egypsk stjórnvöld þegja þunnu hljóði

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) gaf nokkrum dögum síðar frá sér yfirlýsingu þess efnið að báturinn hefði lagt úr höfn í Líbíu. UNHCR sagði að stofnunin hefði ekki vald til að rannsaka glæpamál.

„Hins vegar þarf að skoða að mörg þúsund manns hafa týnst á Miðjarðarhafinu. Það þarf að skoða að skipulagt smygl, sem er augljóslega í gangi,“ sagði í yfirlýsingu UNHCR.

Egypsk stjórnvöld hafa aldrei gefið frá sér opinbera yfirlýsingu þar sem tekið er fram að báturinn hafi sokkið í þeirra landhelgi. Né heldur hafa þau viðurkennt að báturinn hafi lagt af stað úr egypskri höfn, sem skilur margar fjölskyldur hinna látnu eftir í lausu lofti.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert